Innlent

Guð­rún ráðin bæjar­stjóri Sveitar­fé­lagsins Voga

Lovísa Arnardóttir skrifar
Guðrún hefur starfað hjá sveitarfélaginu síðan sumarið 2023 þegar hún var ráðin sem sviðsstjóri fjármála og stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Guðrún hefur starfað hjá sveitarfélaginu síðan sumarið 2023 þegar hún var ráðin sem sviðsstjóri fjármála og stjórnsýslu sveitarfélagsins. Aðsend

Guðrún P. Ólafsdóttur verður bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga. Ráðning hennar var tekin fyrir á fundi bæjarráðs sveitarfélagsins í gær og tekur formlega gildi eftir bæjarstjórnarfund í næstu viku samkvæmt tilkynningu.

Guðrún hefur verið starfandi bæjarstjóri frá því að fyrrverandi bæjarstjóri lét af störfum. Gunnar Axel Axelsson lét af störfum sem bæjarstjóri Voga vegna veikinda. Fram kom í fréttum í október að hann hefði verið að glíma við langtímaafleiðingar af Covid 19.

„Ég þakka bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga það traust sem mér er sýnt með ráðningunni. Síðastliðið ár hef ég fengið að kynnast samfélaginu í Vogum sem er kyrrlátt og samheldið. Fram undan eru spennandi verkefni, meðal annars við innviðauppbyggingu samhliða fólksfjölgun til að tryggja íbúum áfram góða þjónustu. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs með bæjarfulltrúum, samstarfsfólki og íbúum í Sveitarfélaginu Vogum,“ segir Guðrún í tilkynningu.

Guðrún starfaði áður við fjármála- og rekstrarstjórnun og í fjárfestingabankastarfsemi. Hún lauk M.sc gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands árið 2012 og Cand.Oecon gráðu í viðskiptafræði með áherslu á fjármál árið 2002 frá sama skóla.

Birgir Örn Ólafsson, forseti bæjarstjórnar, lýsir ánægju með ráðningu Guðrúnar og bindur vonir við farsæla samvinnu hér eftir sem hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×