Upp­gjörið: Aftur­elding - Valur 29-25 | Mosfellingar unnu stórleikinn

Hinrik Wöhler skrifar
Ihor Kopyshynskyi skorar eitt af sjö mörkum sínum í öruggum sigri Aftureldingar í kvöld.
Ihor Kopyshynskyi skorar eitt af sjö mörkum sínum í öruggum sigri Aftureldingar í kvöld. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Afturelding sigraði Val með fjórum mörkum í stórleik umferðarinnar í Olís-deild karla í kvöld. Leikurinn fór fram í Mosfellsbæ og var sigurinn nokkuð þægilegur fyrir heimamenn þrátt fyrir jafnan fyrri hálfleik.

Það var jafnræði með liðunum í upphafi leiks og voru hornamenn liðanna atkvæðamiklir í upphafi leiks. Liðin skiptust á að skora og var staðan 9-9 um miðbik fyrri hálfleiks.

Í kjölfarið hægðist á sóknarleik Valsmanna og Einar Baldvin Baldvinsson hrökk í gang í marki Aftureldingar. Heimamenn gengu á lagið og refsuðu Valsmönnum fyrir mistök með hraðaupphlaupum og mörkum úr seinni bylgju.

Blær Hinriksson sækir að marki Valsmanna.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Mosfellingar leiddu með þremur mörkum í hálfleik en staðan var 16-13. Eins og áður kom fram leituðu liðin mikið til hornamannanna en Ihor Kopyshynskyi var öruggur í vinstra horninu hjá Mosfellingum og sömuleiðis var Úlfar Páll Monsi Þórðarson atkvæðamestur fyrir gestina.

Það var sami taktur í leiknum í upphafi síðari hálfleiks. Valsmenn spiluðu hægan sóknarleik en náðu þó að finna glufur í vörn Aftureldingar. Mosfellingar svöruðu þó ávallt í sömu mynt hinum megin og héldu forskotinu.

Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði níu mörk á móti sínum gömlu félögum í kvöld.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Gestirnir fengu tækifæri til að koma sér inn í leikinn að nýju en tvö víti fóru meðal annars forgörðum í upphafi síðari hálfleiks. Mosfellingur gripu tækifærið og juku muninn í kjölfarið.

Birgir Steinn Jónsson var fremstur meðal jafningja í sóknarleik Aftureldingar og kom heimamönnum í fimm marka forystu um miðbik síðari hálfleiks.

Mosfellingar litu aldrei til baka eftir það þó að Valsmenn sýndu ágæta kafla í sókninni undir lok leiks og endaði leikurinn 29-25, heimamönnum í vil.

Atvik leiksins

Upphafsmínútur síðari hálfleiks voru afdrifaríkar fyrir gestina. Valsmenn töpuðu boltanum þó nokkrum sinnum og brenndu af tveimur vítum með skömmu millibili. Þrátt fyrir það gerðu Valsmenn vel og minnkuðu muninn í tvö mörk á tímabili en gestunum brást bogalistin þegar tækifæri gafst að minnka muninn enn frekar.

Stjörnur og skúrkar

Birgir Steinn Jónsson var drifkrafturinn í sóknarleik Aftureldingar og kom oftar en ekki til bjargar á mikilvægum augnarblikum. Ihor Kopyshynskyi var með sjö mörk úr vinstra horninu og var afar traustur.

Birgir Steinn Jónsson skoraði níu mörk í kvöld og leiddi sóknarleik Mosfellinga.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Sóknarleikur Valsmanna var hægur og var útilína gestanna í mestum vandræðum framan af. Það má telja upp marga sterka leikmenn Vals sem náðu ekki að skila nægilega góðu dagsverki í kvöld. Meðal annars náðu Bjarni Selvindi og Agnar Smári Jónsson ekki sér á strik í kvöld.

Markverðir Vals, Björgvin Páll Gústavsson og Arnar Þór Fylkisson, voru samanlagt með um það bil 10% markvörslu í kvöld og virtust Mosfellingar skora að vild.

Dómarar

Mosfellingar voru ekki sáttir með Svavar Ólaf Pétursson og Sigurð Hjört Þrastarson undir lok fyrri hálfleiks. Valsmenn töpuðu boltanum þegar þeir léku án markmanns og komst Árni Bragi Eyjólfsson í hraðaupphlaup í kjölfarið. Allan Norðberg brá á það ráð að stökkva á Árna Braga en Allan slapp með skrekkinn og fékk að líta tveggja mínútna brottvísun. Mosfellingar vildu sjá rautt spjald þar sem Allan var aftasti maður á vellinum þar sem enginn var í marki.

Allan Norðberg gekk ansi vasklega fram þegar hann braut á Árna Braga Eyjólfssyni undir lok fyrri hálfleiks.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Annars var ágætis samræmi hjá dómaratvíeykinu í kvöld en það var í nógu að snúast hjá þeim en þeir gáfu 11 tveggja mínútna brottvísanir í leiknum.

Stemning og umgjörð

Það var ágætis stemning í Mosfellsbæ en þar sem liðin sitja í efstu sætum Olís-deildarinnar má setja kröfu á betri mætingu í stúkuna. Það má þó gera fastlega ráð fyrir því að stuðningsmannasveitir liðanna taki við sér með hækkandi sól og þegar nær dregur úrslitakeppni.

Agnar Smári Jónsson og Blær Hinriksson takast á.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Viðtöl

Einar Baldvin: „Þetta er eins og Víðir, Þórólfur og Alma“

Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Aftureldingar, hélt Valsmönnum í skefjum í kvöld.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Markvörður Aftureldingar, Einar Baldvin Baldvinsson, var öflugur milli stanganna í kvöld en hann varði 12 skot og var með 35% markvörslu.

„Mjög sáttur með þetta og þetta var mjög kærkomið. Stoltur af liðinu í dag og stóðum okkur eins og hetjur, í sókn og vörn,“ sagði Einar skömmu eftir leikinn í kvöld.

Einar Baldvin telur að mögulega hafi þreyta sett í strik í reikninginn fyrir Valsmenn.

„Ætli þeir hafi ekki verið þreyttir. Þeir hafa verið að spila mikið, talsvert álag og ferðalag á þeim eftir þessa Evrópukeppni.“

Undanfarna leiki hafa Mosfellingar haft þrjá markverði í hóp og fengu þeir allir að spreyta sig í leiknum í kvöld. Einar Baldvin svarar glettnislega þegar hann er spurður út í samvinnuna milli markvarðanna þriggja.

„Þetta er eins og Víðir, Þórólfur og Alma. Allir hafa sitt og gengur bara mjög vel og við vegum á móti hvorum öðrum. Allir hafa sína styrkleika og veikleika þannig við myndum góðan plús.“

Einar Baldvin kom til liðsins frá Gróttu fyrir þetta tímabil og unir sér vel í Mosfellsbænum. Það stendur ekki á svörum þegar hann er spurður út í vistaskiptin og er hann strax orðinn heimakær í Mosfellsbæ.

„Ég elska að vera hérna í Mosfellsbænum, ég held að langafi hafi verið með fyrstu mönnum í bænum á sínum tíma og þannig ég er kominn heim má segja,“ sagði markvörðurinn litríki að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira