Thompson var skotinn til bana fyrir utan hótel á Manhattan í gær, þar sem hann var að halda árlega fjárfestaráðstefnu. Svo virðist sem morðinginn hafi beðið sérstaklega eftir Thompson og skaut hann í bakið með skammbyssu með hljóðdeyfi.
Morðið náðist á mynd úr öryggismyndavél og sést þar hvernig byssan stóð á sér milli skota og að launmorðinginn brást mjög hratt við því.
Sagt var frá því í dag að morðinginn hefði skrifað á patrónur sem urðu eftir á vettvangi morðsins. Á meðal þess sem hann hafði skrifað voru orðin „Defend“, „delay“ og „deny“ eða „Verja“, „tefja“ og „neita“.
Í grein New York Times segir mögulegt að með því sé morðinginn að vísa til þess hvernig tryggingafélög eiga það til að reyna að komast hjá því að greiða veiku fólki út sjúkratryggingar. Fyrirtækið UnitedHealthcare, sem Thompson stýrði, hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir slíka háttsemi á undanförnum árum.
Sagt var frá því í gær að Thompson hefði borist nokkrar hótanir að undanförnu en hversu alvarlegar þær voru liggur ekki fyrir. Thompson sjálfur var ekki með nokkurs konar öryggisgæslu.
Var á gistiheimili
Nýju myndirnar af manninum sem birtar voru í dag voru teknar á gistiheimili þar sem maðurinn er talinn hafa gist í aðdraganda morðsins. Ekki er vitað hvað hann heitir en NYT segir rannsakendur hafa nokkrar vísbendingar til að rannsaka.
Eric Adams, umdeildur borgarstjóri New York, sagði í dag að lögreglan væri á réttri slóð og að morðinginn yrði handsamaður.