Upp­gjörið: Valur - Grinda­vík 88-77 | Íslandsmeistarnir á­fram í bikarnum

Andri Már Eggertsson skrifar
Taiwo Badmus þurfa að fara að rífa sig í gang.
Taiwo Badmus þurfa að fara að rífa sig í gang. vísir/Diego

Valsmenn unnu ellefu stiga sigur gegn Grindavík 88-77 og eru áfram í VÍS-bikarnum. 

Valur frumsýndi nýjan leikmann í kvöld. Þrátt fyrir að vera nýkominn til liðsins var Svíinn Adam Ramstedt í byrjunarliðinu.

Grindvíkingar byrjuðu betur og komust snemma í bílstjórasætið. Sóknarleikurinn gekk vel þar sem Daniel Mortensen fór fyrir sínu liði og gerði tíu stig í fyrsta leikhluta. Valsmenn gerðu ekki körfu í opnum leik síðustu tvær og hálfa mínútuna í fyrsta leikhluta. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21-29.

Annar leikhluti var ný farinn af stað og eftir fjögur stig í röð frá Grindavík fékk Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, nóg og tók leikhlé í stöðunni 27-35. Eftir það fór að ganga betur hjá heimamönnum sem áttu nokkrar fínar rispur. Forskot Grindavíkur fór minnst niður í tvö stig en staðan í hálfleik var 41-44.

Seinni hálfleikur fór vel af stað þar sem Deandre Kane minnti á sig og gerði fyrstu fimm stigin í seinni hálfleik.

Undir lok þriðja leikhluta létu heimamenn rigna niður þriggja stiga körfum. Kristinn Pálsson, Kári Jónsson og Frank Booker settu allir niður þrist og heimamenn enduðu á að gera ellefu stig í röð og komust yfir í fyrsta skipti í leiknum.

Grindavík gerði ekki stig síðustu fimm mínúturnar í þriðja leikhluta á meðan Valur gerði ellefu stig í röð og var yfir þegar haldið var í fjórða leikhluta 59-57.

Valsmenn héldu áfram að hamra járnið á meðan það var heitt og byrjuðu á að gera tvær körfur í röð. Grindvíkingar komust svo loksins á blað eftir að hafa ekki gert körfu í tæplega sex mínútur.

Valsmenn voru sterkari á svellinu í fjórða leikhluta og unnu ellefu stiga sigur 88-77 og verða í pottinum þegar dregið verður í næstu umferð í VÍS-bikarnum.

Atvik leiksins

Í fjórða leikhluta setti Deandre Kane niður skot og fékk villu að auki. Kane klikkaði hins vegar á vítinu og í næstu sókn Vals steig Taiwo Badmus hann út, náði sóknarfrákasti og fékk auðveld tvö stig. Þarna komst Valur ellefu stigum yfir þegar að ein mínúta var eftir og sigurinn var í höfn.

Stjörnur og skúrkar

Kristinn Pálsson, leikmaður Vals, var allt í öllu hjá Val og var stigahæstur með 23 stig. Kristinn setti niður sjö þrista og var með 58 prósent þriggja stiga nýtingu sem telst gott.

Adam Ramstedt, nýjasti leikmaður Vals, var einnig öflugur. Adam er 210 sentimetrar og var það sem Val vantaði. Hann endaði með 13 stig og 9 fráköst.

Valur Orri Valsson, leikmaður Grindavíkur, var í vandræðum í kvöld. Valur endaði með fimm stig en í opnum leik tók hann níu skot og aðeins eitt fór ofan í.

Dómararnir [6]

Dómararnir í kvöld voru Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson.

Dómararnir skiluðu fínu dagsverki og það var lítið út á þá að setja. Á einum tímapunkti voru Grindvíkingar pirraðir þegar það var vesen á klukkunni en það hafði ekkert með dómarana að gera. 

Stemning og umgjörð

Það var tvíhöfði í N1-höllinni þar sem bæði karla og kvennalið Vals léku í VÍS-bikarnum. Það var fín mæting á seinni leikinn þar sem Valur og Grindavík áttust við. Umgjörðin var góð og krakkar fengu að spreyta sig á skotleik milli leikhluta.

„Þó við stæðum á bryggjunni myndum við ekki hitta hafið“

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari GrindavíkurVísir/Pawel

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var svekktur eftir að hafa dottið úr leik í VÍS-bikarnum.

„Þetta var í járnum allan tímann. Það voru ákveðnar varnarfærslur sem klikkuðu undir lokin. Þetta er þriðji leikurinn sem við erum að hitta mjög illa og þó við stæðum á bryggjunni myndum við ekki hitta hafið. Það er mjög erfitt að vinna körfuboltaleik þannig en Valur gerði vel undir lokin og mér fannst þetta bæting frá því á fimmtudaginn en súrt tap,“ sagði Jóhann Þór í samtali við Vísi eftir leik.

Jóhann var nokkuð ánægður með frammistöðu liðsins en þó mjög fúll að hafa dottið úr VÍS-bikarnum. 

„Við vorum þremur stigum yfir í hálfleik sem var lítil forysta. Þeir tóku áhlaup undir lokin og náðu þessu forskoti og á meðan við vorum að hitta illa var erfitt að vinna upp þetta forskot. Við erum úr leik og það er fúlt en við þurfum að einbeita okkur að því að halda áfram að vera í þessari baráttu en þetta var bara einn leikur og það þýðir ekkert að dvelja við þetta.“

Aðspurður út í leikmannamál og hvort það væru breytingar í vændum hjá Grindavík vildi Jóhann gefa lítið upp.

„Við erum að skoða eitthvað. Það er ekki nóg að fylla liðið af einhverjum leikmönnum þetta þarf að passa líka og vonandi gengur það upp. Ég veit ekki hvort við bætum við en við erum að pæla í þessu það er það eina sem ég get sagt,“ sagði Jóhann Þór að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira