Erlent

Lík­legasta kanslara­efnið heim­sótti Kænugarð

Kjartan Kjartansson skrifar
Líklegt er að Friedrich Merz verði næsti kanslari Þýskalands. Hann leiðir Kristilega demókrata (CDU), flokk Angelu Merkel, fyrrum kanslara.
Líklegt er að Friedrich Merz verði næsti kanslari Þýskalands. Hann leiðir Kristilega demókrata (CDU), flokk Angelu Merkel, fyrrum kanslara. Vísir/EPA

Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata, og líklegur eftirmaður Olafs Scholz sem kanslari Þýskalands, kom til Kænugarðs til þess að fullvissa úkraínska ráðamenn um áframhaldandi stuðning í morgun. Úkraínustríðið er efst á baugi í kosningabaráttunni í Þýskalandi.

„Við viljum að þessu hræðilega stríði ljúki sem fyrst og að friður komist aftur á í Evrópu,“ sagði Merz við komuna til Kænugarðs.

Þjóðverjar ganga til kosninga 23. febrúar eftir að þriggja flokka samsteypustjórn Olafs Scholz sprakk með hvelli í síðasta mánuði. Útlit er fyrir að Úkraína verði eitt helsta kosningamálið. 

Merz hefur verið herskárri í afstöðu sinni til Rússlands en Scholz. Hann hefur til að mynda sagt að Þjóðverjar ættu að láta Úkraínumönnum í té langdrægar Taurus-stýriflaugar ef Rússar halda áfram að gera árásir á borgaralega innviði landsins, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Pútín mun aðeins ganga að samningaborðinu ef staða Úkraínu er sterk. Ef stuðningur okkar við Úkraínu dvínar dregst þetta stríð á langinn. Ef við verðum stöðug í stuðningi okkar endar þetta stríð fyrr,“ sagði Merz í morgun.

Scholz hefur aftur á móti stært sig af því að vera varkár í stuðningi við Úkraínu og að þráast við að gefa vopn sem Úkraínumenn hafa sóst eftir. Hann sætti nokkurri gagnrýni fyrir að ræða við Vladímír Pútín Rússlandsforseta í síma í síðasta mánuði. Það var fyrsta samtal leiðtoganna tveggja í tvö ár.


Tengdar fréttir

Scholz verður kanslara­efni Jafnaðar­manna

Eftir tveggja vikna innanflokksdeilur er ljóst að Olaf Scholz Þýskalandskanslari verður í dag formlega tilnefndur sem kanslaraefni flokksins í komandi þingkosningum sem munu fara fram 23. febrúar næstkomandi.

Scholz ver sím­tal sitt við Pútín

Enga hugarfarsbreytingu var að merkja hjá Vladímír Pútín gagnvart stríðsrekstri hans í Úkraínu í símtali við Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, fyrir helgi. Scholz á í vök að verjast vegna símtalsins og er sakaður um að rjúfa samstöðu með Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×