Töluvert uppþot varð í nammiheiminum í síðustu viku þegar Hinrik Hinriksson sölustjóri hjá Nóa Síríus sagði í Bítinu á Bylgjunni að konfekt Nóa Síríus væri það eina sem væri framleitt á Íslandi. Það sagði hann í tengslum við umræðu um miklar verðhækkanir á súkkulaði vegna uppskerubrests í Afríku þar sem það er ræktað.
Freyja og Góa-Linda brugðust strax við fyrir helgi og leiðréttu þennan misskilning. Pétur og Atli segja að um leið og þetta hafi verið farið út hafi fólk verið byrjað að hringja og senda þeim skilaboð. Það hafi því ekki verið annað hægt en að leiðrétta misskilning.
Þeir segjast hafa þurft að hækka sín verð eins og Nói Síríus. Það sem geti útskýrt meiri verðhækkun hjá þeim gæti verið til dæmis dýrari hráefni en að hin fyrirtækin þurfi líklega að taka sömu hráefni inn og því gætu vörurnar þeirra hækkað með sambærilegum hætti.
„Þetta er bara ekki komið alveg inn hjá okkur,“ segir Pétur hjá Freyju og að það verði líklega hægt að sjá þessar hækkanir hjá þeim um páskana. Verðið á kakóbaununum hafi þrefaldast í verði frá því í október í fyrra. Atli tekur undir þetta og segir meiri hækkanir skella á næsta ári.
„Sölustjórinn minn Davíð hefur útskýrt þetta þannig að kakómassi sé dálítið fyrir okkur sælgætisgerðirnar eins og olía fyrir flugfélögin. Þetta er aðalkostnaðarliðurinn og ef hann fer upp þá hækkað verð,“ segir Pétur.
Þeir segja verð á páskaeggjum ekki endilega eiga eftir að þrefaldast eins og verðið á kakóinu en að þau verði dýrari. Þannig sé gott að kíkja á kílóverðið til að sjá raunverulega hverjir eru ódýrastir.
Mikil samkeppni á sælgætismarkaði
Þeir segja mikla samkeppni á milli þessara fjögurra sælgætisgerða á Íslandi um nýjar vörur og verð. Það sé samt virðing líka fyrir vöruþróun og vinátta. Það sé til dæmis stundum verið að lána kakómassa og kakósmjör á milli fyrirtækja.
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að ofan.