Innlent

Heimilis­kötturinn drepinn við kjallara­tröppurnar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Grunur leikur á að um sömu hunda sé að ræða og þá sem komust í fréttirnar í sumar.
Grunur leikur á að um sömu hunda sé að ræða og þá sem komust í fréttirnar í sumar. vísir

Fólk í Langholtshverfi er varað við því í íbúahópi, að hundar gangi nú lausir og drepi ketti.

Fréttastofu hafa borist ábendingar um að hundar hafi gengið bersersksgang í kvöld. Íbúi í Efstasundi staðfestir í samtali við fréttastofu að köttur hans hafi orðið hundunum að bráð. 

„Lögreglan kom og bókaði málið en ég veit ekki hvaða hundar þetta voru. Þetta gerðist mjög hratt,“ segir Marjakaisa Matthíasson eigandi kattarins. 

Kötturinn var á leiðinni inn en hann var drepinn við tröppur kjallara hússins. 

„Ég heyrði í hundunum og kettinum og þess vegna fór ég í kjallarann til að hleypa honum inn. Ég þorði eiginlega ekki að opna hurðina vegna látanna í þeim.“

Í íbúahópnum „Langholtshverfi - 104“  á Facebook var fyrr í kvöld varað við því að „tveir lausir Weimaraner hundar“ væru  „hlaupandi í Efstasundinu einmitt núna“.

Einn íbúanna fullyrðir að um sömu hunda sé að ræða og komust í fréttirnar í sumar. Þá var greint frá því að Dýraþjónusta Reykjavíkur væri með til skoðunar mál þriggja veiðihunda, ungverskra viszla, sem grunaðir væru um að hafa drepið heimiliskött. Sömu hundar hefðu verið grunaðir um að hafa drepið tvo ketti áður.

„Þeir fóru eitthvert lengst um leið, kötturinn náði að komast í burtu og við öll með lítil börn og 3 hunda í húsinu og lætin rosaleg þetta var svo mikið kaos,“ segir annar íbúi í hópnum.

Fulltrúi Dýraþjónustu Reykjavíkur staðfestir að þjónustunni hafi borist sambærilegar ábendingar og vinni nú í því að fanga hundana. Það geti hins vegar reynst erfitt á meðan dimmt er. Því er beint til kattaeiganda að halda þeim innandyra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×