Enski boltinn

Rio: Vonandi jafn vægðarlausir gagn­vart leik­mönnunum sem ekkert geta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rio Ferdinand vann ófáa titlana á glæsilegum ferli sinum með Manchester United.
Rio Ferdinand vann ófáa titlana á glæsilegum ferli sinum með Manchester United. Getty/Matthew Peters

Rio Ferdinand var eins og fleiri mjög hissa á ákvörðuninni hjá eigendum Manchester United að reka yfirmann fótboltamála eftir aðeins nokkra mánaða í starfi.

United keypti Dan Ashworth frá Newcastle í sumar en hann náði bara að klára fimm mánuði á Old Trafford.

Það er talað um að Sir Jim Ratcliffe hafi ekki verið ánægður með fjölda kaupa Ashworth á þessu hálfa ári og hafi hreinlega misst trúna á Ashworth.

Ferdinand er goðsögn hjá Manchester United og menn hlusta þegar hann tala enda um tíma einn besti miðvörður heims. Ferdinand er furðu lostinn yfir óreiðunni sem virðist vera í gangi á bak við tjöldin á Old Trafford.

Þessi þróun mála hjá hans gamla félagi fer líka augljóslega í taugarnar á Rio.

„Glundroði er það fyrsta sem kemur upp í hugann,“ sagði Ferdinand í hlaðvarpsþætti sínum Rio Presents.

Hann segist vona að þeir séu jafn vægðarlausir gagnvart fjölmörgum leikmönnum sem hann telur að séu ekki nógu góðir til að spila með Manchester United.

„Ég vona að þeir séu jafn vægðarlausir gagnvart skítaleikmönnunum sínum og þeir hafa verið gagnvart starfsfólkinu sem hefur misst vinnuna að undanförnu eftir að hafa verið þar til fjölda ára,“ sagði Ferdinand.

„Ef að það eru enn þarna skítaleikmenn eða leikmenn sem eru ekki nógu góðir. Verið eins vægðarlausir gagnvart þeim. Losið ykkur við þá leikmenn strax,“ sagði Ferdinand. Hann nefnir einstaka leikmenn ekki á mark en það er búist við að nokkrir leikmenn yfirgefi félaigð í janúar eða í sumar.

„Þeir tóku alla vega blóðuga ákvörðun í þetta skiptið,“ sagði Ferdinand eins og sjá má með því að fletta hér fyrir neðan. Hann vill því hreinsa út á Old Trafford og er ekki sá eini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×