Fótbolti

Að­stoðar­dómarinn grét eftir leik

Sindri Sverrisson skrifar
Marco Rose gaf sér góðan tíma í að ræða við og hughreysta aðstoðardómarann Alessandro Giallatini eftir leik í gærkvöld.
Marco Rose gaf sér góðan tíma í að ræða við og hughreysta aðstoðardómarann Alessandro Giallatini eftir leik í gærkvöld. Skjáskot/Stöð 2 Sport 2

Það vakti mikla athygli í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld þegar ítalski aðstoðardómarinn Alessandro Giallatini sást fella tár og faðma þjálfara og leikmenn, eftir 3-2 útisigur Aston Villa gegn RB Leipzig.

Nú er komið í ljós að ástæðan fyrir því að Giallatini grét er sú að þetta var hans síðasti leikur á hliðarlínunni.

Marco Rose, stjóri Leipzig, sem hafði mátt þola svekkjandi tap gaf sér góðan tíma í að hughreysta Giallatini. Spánverjinn Pau Torres úr liði Villa, og fleiri leikmenn, sýndu honum einnig hlýju og velvild á þessum tímamótum, eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan.

Klippa: Grét eftir lokaflaut í Meistaradeildinni

„Ég óskaði honum til hamingju og sagði honum að núna hefði hann aðeins meiri frítíma. Að hann ætti að nýta sér það fyrir sjálfan sig og til að sjá um fjölskylduna,“ sagði Rose eftir leik.

Giallatini er 49 ára og hefur lengi starfað í ítölsku A-deildinni, og staðið sig vel því hann hefur verið þar sem aðstoðardómari í hátt í 170 leikjum.

Þá hefur Giallatini einnig dæmt fjölda leikja í Evrópu en leikurinn í gærkvöld var hans 31. leikur sem aðstoðardómari í Meistaradeildinni, til viðbótar við ellefu leiki í Evrópudeildinni.

Giallatini hefur einnig verið aðstoðardómari í landsleikjum, til að mynda í fjórum leikjum á Evrópumótinu í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×