Enski boltinn

Sker niður jóla­gjöfina til starfs­fólks United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sir Jim Ratcliffe á rúmlega fjórðungshlut í Manchester United.
Sir Jim Ratcliffe á rúmlega fjórðungshlut í Manchester United. getty/Martin Rickett

Sir Jim Ratcliffe heldur áfram að skera niður hjá Manchester United og nú hefur hann ákveðið að gefa starfsfólki félagsins ódýrari jólagjöf en áður hefur tíðkast.

Starfsfólk United fékk alltaf hundrað punda jólabónus (17.744 íslenskar krónur) en fær núna gjafabréf að verðmæti fjörutíu punda (7.097 króna) í Marks & Spencer. Auk þess að gefa ódýrari jólagjöf verður heldur ekkert jólapartí haldið fyrir starfsfólk United.

Síðan Ratcliffe og félag hans, INEOS, eignaðist 27,7 prósent hlut í United hefur hann rekið 250 manns frá félaginu.

Um helgina rak hann Dan Ashworth úr starfi íþróttastjóra United. Hann hafði aðeins gegnt því í fimm mánuði. United lagði mikið á sig til að fá Ashworth frá Newcastle United og er talið hafa greitt væna summu fyrir hann.

Þá var Erik ten Hag rekinn sem knattspyrnustjóri United í lok október. Við starfi hans tók Ruben Amorim. United er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins nítján stig eftir fimmtán leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×