Erlent

Neita full­yrðingum þing­manns um dróna frá „móðurskipi“ Íran

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Singh sagði ekkert til í staðhæfingum þingmannsins.
Singh sagði ekkert til í staðhæfingum þingmannsins. Getty/Kevin Dietsch

Talsmaður Pentagon neitar því staðfastlega að drónar sem sést hafa í New Jersey á síðustu vikum komi frá „móðurskipi“ Írana við austurströnd Bandaríkjanna.

Tugir dróna hafa sést yfir New Jersey í nokkrar vikur, meðal annars við herstöðvar og golfvöll í eigu Donald Trump, fyrrverandi og verðandi Bandaríkjaforseta. Íbúar hafa krafist viðbragða en fátt verið um svör.

Fjallað hefur verið um málið í miðlum vestanhafs síðustu daga en það tók nýja stefnu þegar Jeff Van Drew, þingmaður Repúblikanaflokksins frá New Jersey, sagðist í samtali við Fox News hafa það frá háttsettum heimildarmönnum að drónarnir kæmu frá „móðurskipi“ Íran í Atlantshafi.

Van Drew sagði að réttast væri að skjóta drónana niður.

Sabrina Singh, talsmaður Pentagon, sagði hins vegar á reglubundnum blaðamannafundi í gær að ekkert væri til í fullyrðingum þingmannsins. 

„Það er ekkert íranskt skip við strendur Bandaríkjanna og það er ekkert svokallað móðurskip að senda dróna yfir Bandaríkin,“ sagði hún. Það væri raunar mat hermálayfirvalda að drónarnir tengdust ekki erlendum aðilum eða andstæðingum.

Alríkislögreglan hefur málið til rannsóknar en hefur ekki getað veitt útskýringar enn sem komið er. Phil Murphy, ríkisstjóri New Jersey, sagði 49 tilkynningar hafa borist um dróna bara á sunnudag, en hann ítrekaði að ekki væri talið að þeir ógnuðu öryggi almennings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×