Frá þessu segir í tilkynningu frá félaginu.
„Ásdís Eir er með MS próf í félags- og vinnusálfræði frá Háskóla Íslands og BS próf í sálfræði. Hún hefur síðastliðið ár starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi og unnið að mannauðsverkefnum með fyrirtækjum á borð við Nova, Ljósleiðarann, Veitur, Stafræna Ísland og þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar.
Arnheiður Leifsdóttir stundaði nám í alþjóðamarkaðsfræði við HR og hefur starfað hjá Lyfju frá árinu 2020, síðast sem markaðsstjóri en gegnir núna starfi forstöðumanns markaðs- og vefmála. Áður starfaði hún sem forstöðumaður markaðsmála hjá TM, eða frá 2007 til 2018.
Ólöf Helga Gunnarsdóttir er forstöðumaður vörusviðs og greininga Lyfju. Hún með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og hóf störf á vörusviði Lyfju haustið 2022. Þar áður starfaði hún í vörustýringu hjá 66°Norður á árunum 2015 til 2022,“ segir í tilkynningunni.
Ennfremur segir að Ásdís Eir hafi fjölþætta faglega reynslu eftir að hafa bæði starfað innan fyrirtækja og verið formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi, á árunum 2020 til 2023. Hún var mannauðsstjóri hjá fjártæknifyrirtækinu Lucinity 2021 til 2023 og í mannauðsteymi Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2016 til 2021.
Ný framkvæmdastjórn
Auk Ásdísar, Arnheiðar og Ólafar eru Þórbergur Egilsson og Þorvaldur Einarsson hluti af hópi forstöðumanna Lyfju undir forystu Karenar Óskar Gylfadóttur framkvæmdastjóra.
„Þórbergur leiðir verslanasvið Lyfju og hefur starfað hjá félaginu frá 1996 sem stjórnandi og lyfsali í ýmsum apótekum. Þórbergur hefur lokið M.Sc. í lyfjafræði frá Háskóla Íslands og MBA frá Háskólanum í Reykjavík.
Þorvaldur hefur leitt tækni- og þróun félagsins frá 2022. Hann starfaði áður sem viðskiptaþróunarstjóri App Dynamic og forstöðumaður hugbúnaðarlausna hjá Origo. Þorvaldur er með B.Sc. í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands og er að auki með M.Sc. próf í rafmagnsverkfræði frá University of Maryland,“ segir í tilkynningunni.