Enski boltinn

Lemina sviptur fyrirliðabandinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mario Lemina var brjálaður eftir leikinn gegn West Ham United.
Mario Lemina var brjálaður eftir leikinn gegn West Ham United. getty/Alex Pantling

Mario Lemina er ekki lengur fyrirliði enska úrvalsdeildarliðsins Wolves. Nelson Semedo tekur við því hlutverki.

Gary O'Neil, knattspyrnustjóri Wolves, greindi frá fyrirliðaskiptunum á blaðamannafundi fyrir botnslaginn gegn Ipswich Town.

Lemina reifst harkalega við Jarrod Bowen, fyrirliða West Ham United, eftir leik liðanna á mánudaginn. Hamrarnir unnu hann, 2-1. O'Neil sagði að uppákoman hefði orðið til þess að hann ákvað að skipta um fyrirliða.

„Við höfum talað mikið saman í vikunni, við Mario og nokkrir af eldri leikmönnunum. Það sem gerðist eftir leikinn á ekki að gerast,“ sagði O'Neil.

„Við vitum allir að tilfinningarnar geta borið menn ofurliði. Við erum í erfiðri stöðu, allir eru að berjast og gefa allt sem þeir eiga undir mikilli pressu. En við sjáum svona lagað ekki aftur.“

Lemina var gerður að fyrirliða Wolves í sumar. Liðið er í nítjánda og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með níu stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×