Erlent

Fót­bolta­maðurinn um­deildi orðinn for­seti Georgíu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fráfarandi forseti neitar að fara úr embætti og krefst nýrra kosninga.
Fráfarandi forseti neitar að fara úr embætti og krefst nýrra kosninga. EPA

Mikheil Kavelashvili var í dag kjörinn forseti Georgíu. Hann var einn í framboði. Hann er sagður hallur undir Kremlið og andvígur áframhaldandi aðildarviðræðum landsins að Evrópusambandinu.

Kavelashvili var forsetaefni flokksins Georgíska draumsins sem bar sigur úr býtum í umdeildum þingkosningum sem fóru fram þar í landi 26. október. Niðurstöðum kosninganna hefur verið mótmælt stöðugt og harkalega síðan og hefur Georgíski draumurinn verið sakaður um kosningasvindl. Guardian greinir frá.

Stjórnarandstaðan hefur sniðgengið þingið síðan niðurstöður kosninganna lágu fyrir og fráfarandi forseti, Salome Zourabishvili, neitar að fara úr embætti. Krafist er nýrra kosninga án svindlsins meinta og áhrifa frá nágrannalandinu til norðurs.

Í Georgíu er forseti kjörinn af þingi kjörmanna sem er samsettur af þingmönnum og sveitarstjórnafulltrúum. Af 225 kjörmönnum greiddu 224 atkvæði með Kavelashvili sem var, líkt og kom fram, einn í framboði. Á meðan kosningin fór fram hrannaðist upp hópur mótmælenda fyrir utan þinghúsið í Tíblisi, höfuðborg landsins.

Mikheil Kavelashvili á sjálfur langan feril í knattspyrnu að baki sér og var meðal annars framherji í liði Manchester City um tíma. Hann lék einnig lengi í efstu deild svissnesks fótbolta. Hann var kjörinn á þing fyrir hönd Georgíska draumsins árið 2016. Hann hefur sakað Vesturlönd um að kynda undir skautun og öfgavæðingu í georgísku samfélagi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×