Körfubolti

„Dætur mínar eru meiri Ís­lendingar heldur en Makedónar“

Aron Guðmundsson skrifar
Borche Ilievski er mættur aftur í efstu deild. Hann ætlaði sér aðeins að stoppa stutt við á Íslandi en núna hefur hann verið hér á landi í átján ár með sinni fjölskyldu og er ekkert á förum.
Borche Ilievski er mættur aftur í efstu deild. Hann ætlaði sér aðeins að stoppa stutt við á Íslandi en núna hefur hann verið hér á landi í átján ár með sinni fjölskyldu og er ekkert á förum. vísir/daníel

„Líf okkar er á Ís­landi,“ segir körfu­boltaþjálfarinn Borche Ili­evski sem ætlaði að stoppa stutt við á Ís­landi með fjöl­skyldu sinni en nú, átján árum síðar, hafa þau fest rætur hér á landi.

Á dögunum sögðum við ykkur frá frábæru gengi Bónus deildar lið ÍR í körfu­bolta sem hefur nú unnið fjóra leik í röð eftir að ráðist var í þjálfara­breytingar og Borche Ili­evski ráðinn til starfa. Auk þess að þjálfa ÍR starfar Borche sem íþrótta­kennari í Landa­kots­skóla og hefur gert undan­farin þrjú ár.

Þú ert allan daginn í íþrótta­salnum. Hljóma eins og full­komnar aðstæður.

„Já klár­lega,“ svarar Borche. „Síðustu þrjú ár hef ég starfað sem íþrótta­kennari hjá Landa­kots­skóla. Mínir dagar hefjast hér í íþrótta­salnum hjá KR þar sem að ég kenni frá klukkan átta á morgnanna til klukkan tvö á daginn. Ég nýt þess að starfa í kringum þessi börn. Svo þarf maður að hvílast á milli, undir­búa sig og halda síðan aftur í íþrótta­salinn að þjálfa ÍR. Ég nýt þessa fyrir­komu­lags, auðvitað getur það reynt á en er einnig mjög gaman. Í leik okkar gegn KR á dögunum voru flestir minna nem­enda í stúkunni, og studdu auðvitað KR. En það var mjög gaman.“

Ætlaði að stoppa stutt á Íslandi

Borche var þjálfari ÍR yfir sjö ára tíma­bil til ársins 2021 og gerði frábæra hluti með liðið en saga hans og fjöl­skyldunnar hér á landi teygir sig átján ár aftur í tímann þegar að þau fluttust hingað bú­ferlum frá Norður-Makedóníu og Borche tók við liði KFÍ á Ísafirði.

„Árið 2006 þegar að ég kem fyrst til Ís­land og tek við KFÍ á Ísafirði varst þú þar sem krakki. Ég ætlaði bara stoppa stutt við á Ís­landi. Á þessum tíma hafði ég verið valinn efni­legasti þjálfarinn í heima­landi mínu Norður-Makedóníu. Með því fóru hjólin að snúast og ég fékk at­vinnu­til­boð frá Mið-Austur­löndum, Bar­ein og Ís­landi þá 31 árs gamall. Ég ákvað að reyna fyrir mér á Ís­landi. Þannig hófst þessi saga.

Fyrstu árunum varði ég á Ísafirði, átti þar frábær ár. Þaðan fórum við til Sauðárkróks og svo til Reykja­víkur. Okkur fjöl­skyldunni líður sí­fellt meira eins og Ís­lendingum. Þrátt fyrir að ég tali ekki ís­lensku. Dætur mínar eru meiri Ís­lendingar heldur en Makedónar. Líf okkar er á Ís­landi og ég nýt þess að gefa til baka í gegnum körfu­boltann, hvort sem það er í gegnum yngri lands­liðin eða félagsliðin. Körfu­boltinn er mitt líf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×