Erlent

Stofnandi Mango hrapaði til dauða í fjall­göngu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Andic var heiðraður af Filippusi VI fyrr á árinu fyrir viðskiptaferil sinn og störf.
Andic var heiðraður af Filippusi VI fyrr á árinu fyrir viðskiptaferil sinn og störf. Getty

Isak Andic, stofnandi tískuverslanakeðjunnar Mango og einn ríkasti maður Spánar, lést á laugardag þegar hann hrapaði um 150 metra til jarðar í fjallgöngu með fjölskyldu sinni skammt frá Barcelona.

Spænskir fjölmiðlar greina frá andláti hins 71 árs Andic. 

Isak á hafa verið í fjallgöngu með syni sínum, Jonathan Andic, og tengdadóttur þegar hann féll niður gil á leið inn í saltpéturshella í Montserrat-fjalli í Katalóníu. 

Sonur Isaks hringdi á neyðarlínuna um eittleytið og var bæði þyrla kölluð út og sérstakur fjallahópur lögreglunnar. Ekki er talið að slysið hafi borið að með saknæmum hætti.

Tyrkneski strákurinn sem varð að einum ríkasta manni Spánar

Andic fæddist í Istanbúl 1953 en flutti með fjölskyldu sinni 1969 til Barcelona. Hann stofnaði tískuverslanakeðjuna Mango með bróður sínum Nahman árið 1984. Nafnið ku hafa komið til Isaks eftir að hann hafði smakkað ávöxtinn á ferðalagi í Filippseyjum. 

Síðustu fjóra áratugi hefur Mango vaxið gríðarlega og rekur í dag rúmlega 2.500 verslanir í 120 löndum.

Fyrr á árinu mat Forbes auðæfi Andic 4,5 milljarða evra, sem gerði hann að ríkasta manni Katalóníu og fimmta ríkasta manni Spánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×