Innlent

Talið að hamri hafi verið beitt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla var kölluð til vegna árásar á Álfinum í Breiðholti seint í gærkvöldi.
Lögregla var kölluð til vegna árásar á Álfinum í Breiðholti seint í gærkvöldi. Vísir/vilhelm

Tveir voru handteknir og einn fluttur á slysadeild eftir vopnaða árás á Álfinum, krá í Breiðholti, seint í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum fréttastofu er grunur um að hamri hafi verið beitt við árásina.

Hjördís Sigurbjartsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu segir atburðarás gærkvöldsins enn mjög óljósa þar sem ekki hafi enn náðst að yfirheyra mennina sem eiga í hlut. Ætla má að þeir hafi ekki verið í ástandi til þess í gærkvöldi.

Sá sem fluttur var á slysadeild er ekki alvarlega særður en Hjördís segir lögreglu þó alltaf líta það mjög alvarlegum augum þegar vopni er beitt við árás. Hjördís vill ekki staðfesta hvers konar vopn var notað í gærkvöldi, aðeins að um barefli hafi verið að ræða. Samkvæmt heimildum fréttastofu er grunur um að hamri hafi verið beitt, eins og áður segir.

Hjördís segir nákvæman fjölda þeirra sem komu að málum ekki liggja fyrir þar sem ekki hafi fengist skýr mynd af atburðarásinni. Mennirnir tveir sem handteknir voru verði yfirheyrðir í dag.


Tengdar fréttir

Grunur um vopnaða árás á krá í nótt

Tveir voru handteknir í gærkvöldi eða í nótt vegna líkamsárásar á krá í Kópavogi eða Breiðholti. Grunur er á að vopnum hafi verið beitt við árásina. Lögregla var kölluð til vegna málsins og má gera ráð fyrir að málið sé nú rannsakað hjá þeim. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×