Enski boltinn

„Ég er ekki að standa mig vel“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guardiola hefur ekki verið oft í þeirri stöðu sem hann og lið City er í þessa dagana.
Guardiola hefur ekki verið oft í þeirri stöðu sem hann og lið City er í þessa dagana. Vísir/Getty

Pep Guardiola var ómyrkur í máli á blaðamannafundi eftir tapið gegn Manchester United í dag. Hann viðurkenndi að vera í vandræðum að finna lausnir á vandamálum City.

„Áður hefði ég kannski getað reiknað með sigri í svona stöðu þegar tvær mínútur voru eftir. En í þeirri stöðu sem við erum í þá hugsaði ég aldrei um það. Við erum ekki í réttu flæði,“ sagði Pep Guardiola þjálfari Manchester City á blaðamannafundi eftir tapið gegn Manchester United í dag.

Manchester City var í góðri stöðu í leiknum en tvö mörk undir lokin tryggðu Manchester Untied 2-1 sigur. Guardiola tók ábyrgð eftir tapið.

„Þetta er stórt félag og þegar maður tapar átta af ellefu síðustu leikjum er eitthvað af. Það er hægt að tala um leikjaniðurröðun og meiðsli. Ég er þjálfarinn og ég þarf að finna lausnirnar, ég er ekki að gera það. Ég er ekki nógu góður, ég er ekki að standa mig vel.“

„Ég er hér til að reyna og mun halda áfram að reyna“

Guardiola skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við City í nóvember og sagðist ekki getað yfirgefið félagið á erfiðum tíma. Staðan hefur versnað síðan þá og spurningar vaknað hvenær þarf að endurskoða hlutina.

„Ég er hér og ég er ábyrgur. Það væri auðvelt fyrir mig að segja að við höfum tapað leiknum vegna einhvers atviks eða leikmanns en fótbolti er liðsíþrótt.“

„Ég er sannfærður um það sem ég er að segja, ég er ekki nógu góður til þess að finna leið fyrir þá að slaka á og ná ró í huganum. Mig langar það mikið. Ég er hér til að reyna það og ég mun halda áfram að reyna.“

Hann viðurkenndi að hlutirnir væru að versna hjá City.

„Við þurfum augljóslega góð úrslit til að snúa við stemmningunni. Þetta er að versna og raunveruleikinn er þannig. Ég er knattspyrnustjóri þessa félags og þarf að finna lausn. Hingað til hefur það ekki tekist, það er sannleikurinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×