Erlent

Tveir táningar skotnir til bana og þrír særðir

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Tugir unglinga voru á staðnum sem virtist vera vörugeymsla sem búið var að breyta í „skemmtistað“.
Tugir unglinga voru á staðnum sem virtist vera vörugeymsla sem búið var að breyta í „skemmtistað“.

Tveir sextán ára unglingar, strákur og stelpa, voru skotnir til bana og þrír særðir í partýi í Houston í Bandaríkjunum. Meðal hinna særðu er þrettán ára stúlka sem er í lífshættu. Hins grunaða er enn leitað.

Lögreglunni í Houston-borg í Texas-ríki barst tilkynning um skotárásina um 11:20, skömmu fyrir miðnætti, á staðartíma.

„Þegar þeir komu á vettvang sáu þeir hektíska sýn, stóran hóp fólks hlaupandi út úr bráðabirgðaklúbbi,“ sagði Luiz Menendez-Sierra, aðstoðarlögreglustjóri í Houston, á blaðamannafundi.

Luis Menendez-Sierra, aðstoðarlögreglustjóri Houston-lögreglu, á blaðamannafundi í gær vegna skotárásarinnar.

Lögreglan kom að sextán ára dreng sem var úrskurðaður látinn á vettvangi og var farið með sextán ára stúlku á spítala þar sem hún lést af sárum sínum. Að minnsta kosti þrír aðrir voru skotnir að sögn Menendez-Sierra. Þar á meðal þrettán ára stúlka sem er í lífshættu á spítala og nítján ára kona sem kom sér sjálf á sjúkrahús.

Lögreglan hefur ekki enn hneppt neinn í gæsluvarðhald vegna málsins og biðlar til fólks með upplýsingar um skotárásina að leita til lögreglu.

Tómri vöruskemmu breytt í klúbb

Menendez-Sierra segir hópinn á „klúbbnum“ aðallega hafa samanstaðið af unglingum og hélt fólk áfram að streyma út á meðan viðbragðsaðilar hlúðu að hinum særðu.

Húsnæðið virðist hafa verið yfirgefið atvinnuhúsnæði sem hópurinn breytti í tímabundinn klúbb. Menendez-Sierra segir slík partý hafa aukist undanfarið í borginni, þau birtist á samfélagsmiðlum og vegna skorts á utanumhaldi geti slíkir viðburðir haft alvarlegar afleiðingar.

„Ég mun fylgja þessu eftir næstu daga til að sjá hvernig eitthvað eins og þetta verður til, óundirbúið partý myndi ég kalla það, í tómri vöruskemmu,“ sagði John Whitmire, borgarstjóri Houston, á blaðamannafundinum.

„Öryggisverðirnir eru ekki hér, þeir flúðu. Þetta er harmleikur, ég finn til með fjölskyldunum, við skulum biðja fyrir þeim. Við misstum ungt fólk hér í kvöld, sem hefði verið hægt að forðast ef þau hefðu ekki komið á stað sem þennan,“ sagði hann einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×