Erlent

Tólf fundust látin í georgískum skíða­bæ

Atli Ísleifsson skrifar
Gudauri er vinsæll áfangastaður skíðafólks í Georgíu.
Gudauri er vinsæll áfangastaður skíðafólks í Georgíu. Getty

Tólf manns hafa fundist látin í húsi í georgíska skíðabænum Gudauri. Talið er að fólkið hafi látist af völdum kolmónoxíðseitrunar.

Georgískir fjölmiðlar greina frá því að fólkið hafi fundist í svefnrými fyrir ofan indverskan veitingastað í bænum. Er talið að fólkið hafi verið starfsfólk veitingastaðarins.

Fram kemur að ellefu hinna látnu hafi verið erlendir ríkisborgarar en einn verið Georgíumaður.

Lögregla í Georgíu hefur hafið rannsókn á málinu. Í frétt Times of India segir að grunur leiki á að rafstöð, sem hafi verið í notkun vegna rafmagnsleysis fyrr um daginn, hafi valdið eitruninni í rýminu.

Gudauri er vinsæll áfangastaður skíðafólks í Georgíu og er að finna norðarlega í landinu, ekki langt frá landamærunum að Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×