Handbolti

Einar Bragi og fé­lagar unnu toppliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Bragi Aðalsteinsson og félagar unnu flottan sigur í kvöld.
Einar Bragi Aðalsteinsson og félagar unnu flottan sigur í kvöld. Vísir/Anton Brink

Einar Bragi Aðalsteinsson og félagar í Kristianstad unnu frábæran útisigur í sænsku handboltadeildinni í kvöld.

Kristianstad mætti á heimavöll toppliðsins Ystad og fór heim með bæði stigin eftir tveggja marka sigur, 30-28.

Kristianstad minnkaði forskot Ystad með þessu í fjögur stig en bæði Karlskrona og Savehof unnu einnig og eru með jafnmörg stig og Kristianstad.

Kristianstad var sex mörkum yfir í hálfleik, 17-11, eftir frábæran fyrri hálfleik. Heimaliðið sótti að þeim í þeim seinni en leikmenn Kristianstad héldu út.

Einar Bragi skoraði tvö mörk úr fjórum skotum í leiknum.

Savehof vann fimm marka sigur á Amo HK, 39-34. Arnar Birkir Hálfdánsson lék vel með Amo og var með fjögur mörk og fjórar stoðsendingar.

Karlskrona vann þriggja marka útisigur á Önnereds, 33-30. Dagur Sverrir Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir Karlskrona og þótt að Ólafur Guðmundsson hafi ekki skorað sjálfur þá átti hann fimm stoðsendingar sem var það mesta hjá hans liði í leiknum. Karlskrona var undir í hálfleik en vann seinni hálfleikinn 20-16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×