Á heimasíðu Lyfjastofnunar Danmerkur segir að í ljósi þessa hafi stofnunin leitað til nefndar Lyfjastofnunar Evrópu um áhættumat á sviði lyfjagátar (PRAC) til að láta nefndina leggja mat á rannsóknirnar.
„Síðustu sex mánuði höfum við legið yfir skýrslur og rannsóknir um hinn alvarlega augnsjúkdóm Naion í samstarfi við evrópska kollega okkar,“ segir Line Michan hjá dönsku Lyfjastofnuninni að því er segir í frétt DR.
„Með þessum nýju gagnarannsóknum liggja nú fyrir umfangsmikil gögn úr dönskum og norskum skrám sem PRAC getur stuðst við.“
Í rannsóknunum kemur fram að þeir sem hafi notast við Ozempiz séu tvöfalt líklegri til að þróa með sér Naion en þeir sem hafi notast við önnur lyf. „Áður fyrr sáum við sextíu til sjötíu tilfelli Naion-greininga en nú sjáum við allt að hundrað og fimmtíu,“ segir Jakob Grauslund, prófessor í augnlækningum við SDU og einn meðhöfunda rannsóknarinnar.
Fram kemur að ekki sé lagt til að sjúklingar sem notist við Ozempic hætti notkun lyfjanna. Naion sé enn mjög sjaldgæfur og enn séu mjög litlar líkur á að þeir sem noti lyfið þrói með sér sjúkdóminn.
Michan leggur sömuleiðis áherslu á að á þessum tímapunkti er ekki hægt að slá því föstu hvort að það sé Ozempic sem valdi aukinni tíðni Naion-augnsjúkdómsins.