Erlent

Öflugur skjálfti reið yfir Vanúatú

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Fregnir af aurskriðum hafa borist eftir skjálftann.
Fregnir af aurskriðum hafa borist eftir skjálftann. Dan McGarry via AP)

Öflugur jarðskjálfti sem mældist 7,3 stig reið yfir smáríkið Vanúatú í Kyrrahafi í nótt.

Einn er látinn í það minnsta og töluverðar skemmdir hafa orðið á byggingum í höfuðborginni Port Vila, þar á meðal í byggingum þar sem nokkur sendiráð erlendra ríkja eru til húsa, að sögn CNN fréttastofunnar. Á myndum sem hafa borist sést einnig tjón í verslunum og fleiri byggingum í höfuðborginni.

Óljóst er þó um ástandið í dreifðari byggðum en á Vanúatú búa um 330 þúsund manns og dreifast þeir á um áttatíu eyjar. Skjálftinn varð á tæplega 60 kílómetra dýpi um þrjátíu kílómetrum undan ströndum eyjanna og var flóðbylgjuviðvörun gefin út til þess að byrja með, en hún var síðan afturkölluð.

Blaðamaður sem staddur var á eyjununum segir í samtali við ástralskan miðil að skjálftinn hafi varað í um þrjátíu sekúndur og verið afar öflugur. Þá hafa vitni einnig talað um miklar aurskriður í kjölfar skjálftans og er óttast að tala látinna eigi eftir að hækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×