Neytendur

Hægt að borga með korti í strætó

Samúel Karl Ólason skrifar
Hægt er að nota síma eða kort til að greiða snertilaust fyrir eitt fargjald.
Hægt er að nota síma eða kort til að greiða snertilaust fyrir eitt fargjald. Vísir/Vilhelm

Frá og með deginum í dag er hægt að borga snertilaust með korti í Strætó í gegnum Klapp greiðslukerfið. Fyrirkomulagið hefur verið í prófun hjá fyrirtækinu og er nú komið í fullna virkni að því er segir í tilkynningu frá Strætó.

Þar segir að hægt sé að greiða eitt almennt fargjald fyrir fullorðinn einstakling en eins og áður sé hægt að greiða með kortum um borð í landsbyggðarvögnum, þar sem notað er hefðbundið posakerfi.

Talið er að þessi nýja greiðslulausn muni reynast ákveðnum hópum sérstaklega vel og er vísað til óreglulegra notenda og erlendra ferðamanna.

Þessi nýja greiðsluleið virkar þannig að viðskiptavinir geta stigið um borð í strætó og greitt með korti eða síma. Það fargjald gildir í 75 mínútur þannig að ef sama kort er notað í öðrum strætó innan þess tíma fá viðskiptavinir grænt ljós en enga rukkun.

Aðrir sem ætla sér að greiða afsláttarfargjald eða kaupa hópamiða geta áfram notað núverandi leiðir í Klapp greiðslukerfinu, sem tekið var í notkun árið 2021.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×