Innlent

Skera niður í fangelsunum vegna tug­milljóna króna halla­rekstrar

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá fangelsinu á Hólmsheiði. Niðurskurðaraðgerðir eru sagðar ná til allrar Fangelsismálastofnunar.
Frá fangelsinu á Hólmsheiði. Niðurskurðaraðgerðir eru sagðar ná til allrar Fangelsismálastofnunar. Vísir/Vilhelm

Skammtímaráðningarsamningar við starfsfólk Fangelsismálastofnunar verða ekki endurnýjaðir vegna niðurskurðaaðgerða sem kynna á starfsfólki í dag. Settur fangelsismálastjóri segir ástæðuna tugmilljóna króna hallarekstur. Stofnunin hafi verið skorin niður inn að beini og sé komin algerlega að þolmörkum.

Ríkisútvarpið greindi frá því í morgun að niðurskurðaraðgerðir stæðu fyrir dyrum hjá Fangelsismálastofnun vegna áttatíu milljóna króna halla á rekstri hennar.

Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, staðfestir þetta við Vísi en segir eiginlega uppsagnir ekki á dagskránni. Þess í stað fái starfsmenn með stutta ráðningarsamninga ekki ráðningu áfram. Hann ætlar að kynna starfsfólki aðgerðirnar á fundi klukkan 15:00 í dag en þær ná til allrar stofnunarinnar.

Fangelsismálastofnun glími við rekstrarhalla sem hafi komið í ljós við rekstraráætlunargerð. Þótt framlög til stofnunar hafi ekki verið skorin niður í fjárlögum næsta árs segir Birgir ekki borð fyrir báru nema að skorið verði niður. 

„Á þessu ári erum við að glíma við það að við munum væntanlega skila tapi upp á einhverja tugi milljóna króna. Við erum náttúrulega fyrst og fremst að bregðast við því,“ segir Birgir.

Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri var áður lögreglustjóri á Norðurlandi vestra.Stöð 2

Hann vísar til hækkana á ýmsum kostnaði auk launa og að bregðast þurfi við ýmsu öðru í rekstrinum en mannahaldi sem ekki geti beðið lengur.

„Það hefur náttúrulega verið skorið inn að beini í þessari starfsemi í mörg, mörg ár og við erum komin algerlega að þolmörkum. Innviðirnir í stofnuninni eru bara verulega veikburða,“ segir Birgir.

Sérstaklega bendir hann á að stytting vinnuviku opinberra starfsmanna hafi aldrei verið fullfjármögnuð. Stöðugildum hjá Fangelsismálastofnun hafi fjölgað um nokkra tugi við þá breytingu.

„Við höfum kannski bara ekki náð jafnvægi í því,“ segir Birgir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×