Í yfirlýsingu frá Ríkislögreglustjóra segir að sérsveitarmenn hafi tekið þátt í aðgerðinni og er hún sögð hafa gengið vel. Upplýsingafulltrúi Ríkislögreglustjóra segir í samtali við fréttastofu að maðurinn hafi verið vopnaður hnífi.
Samkvæmt lögreglunni voru vægari aðferðir fyrst reyndar til að draga úr ógnandi hegðun mannsins en það mun ekki hafa gengið. Hann hafi svo verið yfirbugaður og var þá svokölluðu rafvarnarvopni beitt í fyrsta sinn hér á landi.
Þessi vopn hafa verið í notkun hjá íslensku lögreglu frá því í september. Í áðurnefndri yfirlýsingu segir að síðan þá hafi rafbyssur verið dregnar 29 sinnum úr slíðri, án þess að vera beitt, í sautján mismunandi málum, að aðgerðinni í gær undanskilinni.
Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu eða myndir á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.