Enski boltinn

Chelsea trúir á sak­leysi Mudryks

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Enzo Maresca styður Mykhailo Mudryk.
Enzo Maresca styður Mykhailo Mudryk. getty/Alex Pantling

Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að félagið trúi á sakleysi Mykhailos Mudryk sem féll á lyfjaprófi.

Í gær var greint frá því að ólöglegt efni hefði greinst í þvagsýni Mudryks. Hann er kominn í ótímabundið bann frá fótbolta.

Í kjölfar frétta gærdagsins sendi Mudryk frá sér yfirlýsingu þar sem hann hélt fram sakleysi sínu. 

„Ég er í algjöru áfalli því ég hef aldrei notað ólögleg efni viljandi eða brotið neinar reglur. Ég vinn náið með teymi mínu að að rannsaka hvernig þetta gat gerst,“ skrifaði Mudryk á Instagram. „En ég veit að ég gerði ekkert rangt og er bjartsýnn að ég snúi fljótlega aftur á völlinn.“

Maresca segir Chelsea standi þétt við bakið á Mudryk og trúi að hann hafi ekki haft rangt við.

„Við styðjum Mykhailo og það þýðir að við trúum honum. Félagið, þjálfarateymið og allir á æfingasvæðinu styðja og treysta Mykhailo. Ég held að hann komi til baka en við vitum ekki hvenær. En hann snýr pottþétt aftur,“ sagði Maresca sem hefur verið í sambandi við Mudryk frá því að fréttir gærdagsins bárust.

„Allir leikmenn sem lenda í svona þurfa stuðning. Þú þyrftir stuðning og ég líka. Þetta snýst ekki um aldur hans eða hvaðan hann kemur,“ sagði Maresca.

Mudryk hefur leikið 73 leiki og skorað tíu mörk fyrir Chelsea síðan félagið keypti hann frá Shakhtar Donetsk í fyrra.

Næsti leikur Chelsea er gegn Shamrock Rovers í Sambandsdeild Evrópu á morgun. Leikurinn hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×