Slot ræddi samband sitt og dómara á blaðamannafundi fyrir leik kvöldsins.
„Þú reynir að hafa eins mikil áhrif á dómarana og hægt er,“ sagði Arne Slot við fjölmiðlamenn á fundinum. ESPN segir frá.
„Mistökin sem ég hef gert, tvisvar sinnum hér og eins tvisvar sinnum í Hollandi, er að búa til kringumstæður eins og allir séu á móti þér og halda að það skili þér einhverju jákvæðu fyrir leikslok,“ sagði Slot.
„Ég reyndi þetta í bæði Chelsea leiknum og Fulham leiknum en það breyttist ekkert. Það var ekki eins og þegar ég reyndi að hafa áhrif á hann að dómarinn gaf okkur allt í einu einu til tvær aukaspyrnur,“ sagði Slot.
„Nei, hann hélt bara sömu línu allan leikinn. Ég veit að þetta virkar ekki en stundum hugsar þú: Get ég ekki haft einhver áhrif á hann? Það hjálpaði samt ekki neitt,“ sagði Slot.
Slot fór í bann eftir að hafa fengið of mörg gul spjöld í fyrstu sautján leikjum sínum í enska boltanum.
„Þú litur alltaf til baka en heilt yfir þá finnst mér ég vera rólegur á hliðarlínunni. Ég veit ekki hvort að það sé viturlegt að segja þetta en ég hef líka mín mörk. Við skulum orða það þannig. Þá læt ég tilfinningarnar hlaupa með mig í gönur en ég fer bara yfir þessi mörk vegna ákvarðana dómara eða ákvarðana leikmanna minna,“ sagði Slot.
Sipke Hulshoff, aðstoðarmaður Slot, mun stýra liðinu í leiknum í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20.00 og er sýndur beint á Vodafone Sport.