„Ég vil vera áfram hérna [á Íslandi]. Þannig að ef einhverju liði vantar stóran mann þá er ég liðtækur. En núna fer ég heim [til Frakklands], svo mun ég sjá til eftir jól hvað gerist. Félagaskiptamarkaðurinn verður opinn allan janúar þannig að það kemur bara í ljós hvað gerist. Ég er 36 ára en er að vonast til að geta hjálpað einhverju liði með minni reynslu og skemmt mér á vellinum. Ég er ekki að flýta mér en er opinn fyrir öllu.“
Steeve sýndi það að minnsta kosti í kvöld að hann getur spilað vel í efstu deild. Hann spilaði 36 mínútur í sigri Hauka og endaði leikinn með 19 stig á góðri skotnýtingu, auk sjö frákasta og tveggja stoðsendinga.
„Já ég get enn spilað, þess vegna langaði mig að ferðast aðeins um. Ég bý yfir mikilli reynslu sem getur nýst liðum vel og er ennþá orkumikill inni á vellinum. Þetta var góð reynsla fyrir mig [að fara til Hauka], svo sjáum við bara hvað gerist næst.“
„Ég veit að Haukar eru að reyna að hjálpa mér að finna nýtt lið og ég er að skoða hvað er í boði. Ég á líka nokkra vini hérna, sem eru að spila í Tindastól og Álftanesi. Við erum bara að virkja tengslanetið og skoða markaðinn, sjá hvort einhver sýni áhuga. Ef eitthvað lið þarf á kröftum mínum að halda fer ég þangað, ef ekki fer ég eitthvað annað,“ sagði Steeve að lokum.
Ef eitthvað lið ákveður að kalla leikmanninn til síns liðs mun Steeve þó vera í leikbanni fyrstu tvo leikina. Hann var dæmdur í bann fyrr í kvöld, sem undirritaður vissi ekki af þegar viðtalið var tekið, fyrir háttsemi sína í bikarleik gegn Breiðablik á dögunum.