Innlent

Fólk fari var­lega í kringum ný­fædd börn í jóla­boðunum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Því yngri sem börn eru, því verri einkenni fá þau ef þau sýkjast af RS-veirunni.
Því yngri sem börn eru, því verri einkenni fá þau ef þau sýkjast af RS-veirunni. Vísir/Vilhelm

Sex börn liggja inni á Barnaspítala hringsins vegna RS-veirusýkingar. Læknir á spítalanum segir að langt sé í land hvað varðar faraldurinn þennan veturinn. Hann biðlar til fólks að fara varlega í kringum nýfædd börn í jólaboðum. 

RS-veiran hefur lagst þungt á landann þennan veturinn. Fleiri börn hafa verið að veikjast en venjulega og þau fengið meiri einkenni. Nokkur börn hafa verið lögð inn á gjörgæslu með sýkingu. Veiran leggst á öndunarveg þeirra sem smitast og getur valdið berkju- og lungnabólgu, sérstaklega í börnum yngri en eins árs.

Sindri Valdimarsson, læknir á Barnaspítalanum, segir mikið álag á starfsfólki spítalans þessa dagana. RS-veiran og fleiri pestir hrjái marga.

„Þetta er því miður jólagjöfin okkar hvert einasta ár. Börnin sem leggjast inn þurfa þá oftast aðstoð með næringu, annað hvort með sondu eða í æð, eða þau sem þurfa aðstoð með súrefni,“ segir Sindri. 

Faraldurinn gengur hér yfir á hverju ári. Sindri segir langt í land í þetta sinn, faraldurinn sé nýhafinn.

„Við búumst við því að þessi sýking verði töluvert ríkjandi af þeim sem koma til okkar í margar vikur í viðbót. Það getur alveg verið í einn til tvo mánuði í viðbót. Þannig það er mikilvægt að passa eins vel og hægt er eigin smitvarnir og ekki að smita nýfædd börn af kvefi í jólaboðunum. Fara sérstaklega varlega í kringum nýfædd börn,“ segir Sindri. 

Sóttvarnayfirvöld eru með til skoðunar nýtt mótefni gegn RS-veirunni. Frá og með næsta vetri gætu nýfædd börn fengið mótefnið sem góð reynsla er af í öðrum Evrópuríkjum. Með því sé hægt að koma í veg fyrir allt að áttatíu prósent af alvarlegum veikindum og innlögnum barna sem fá veiruna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×