Innlent

Inga tók jóla­lag á fyrsta fundi

Jakob Bjarnar skrifar
Fyrsti ríkisstjórnarfundurinn hófst með því að Inga söng lag. Hanna Katrín setti reyndar út á boðskapinn í textanum.
Fyrsti ríkisstjórnarfundurinn hófst með því að Inga söng lag. Hanna Katrín setti reyndar út á boðskapinn í textanum. vísir/heimir Már

Fyrsti ríkisstjórnarfundur ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur var haldinn nú í morgun. Glatt var á hjalla og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og nýr félags- og húsnæðismálaráðherra, var kát og brast hún í söng.

Kristrún, sem sat í öndveigi, skaut því inn í meðan klikkið í ljósmyndavélunum tifaði, hvað væri fyrsta lag á dagskrá? Inga lét ekki segja sér það tvisvar og brast í söng:

„Jólagjöfin mín í ár, ekki metin er til fjár,“ söng Inga hástöfum.

En Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra gat ekki stillt sig, þó hún væri brosandi á þessum fyrsta fundi og skaut inn í.

„Jú, ég held reyndar að hún sé það.“

Við þessa athugasemd brast á með hlátri við ríkisstjórnarborðið. Þó Valkyrjurnar hafi sjálfar sagst vera besta jólagjöfin til þjóðarinnar er víst að ýmsar aðgerðir sem talað er um að ráðast í verða ekki ókeypis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×