Innlent

Grímuskylda á Land­spítalanum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
64 sjúklingar liggja á Landspítala með Covid-19.
64 sjúklingar liggja á Landspítala með Covid-19. Vísir/Vilhelm

Grímuskylda hefur verið sett á Landspítalanum yfir hátíðarnar í ljósi þess að inflúensan sé byrjuð að herja á landsmenn í meiri mæli ofan í aðrar öndunarfæraveirur.

Auglýst var á heimasíðu Landspítalans á aðfangadag að grímuskylda væri nú komin á í öllum sjúklingasamskiptum þar sem annar hvor aðilinn er með skurðstofugrímu. Inniliggjandi sjúklingar þurfa ekki að bera grímu en þeir sem sinna honum gera það. Á göngudeildum skuli allir sjúklingar og fylgdarmenn þeirra bera grímu sem og heimsóknargestir og aðrir sem erindi eiga inn á spítalann.

Fram kemur að heimsóknir verði ekki takmarkaðar að svo stöddu en að mælst sé til þess að aðeins einn gestur komi í einu og beri grímu ásamt því að hreinsa hendur við komu á spítalann. Þá er ennfremur mælst til þess að fólk komi ekki í heimsókn sé það veikt og að það komi ekki með veik börn inn á spítalann.

„Þeir sem hafa í hyggju að taka aðstandendur sína heim um hátíðarnar eru beðnir að gera það ekki ef veikindi eru á heimilinu,“ segir á heimasíðu Lanspítalans. Farsóttanefnd hvetur starfsmenn jafnframt eindregið til að þiggja bólusetningu gegn inflúensu.

Þessar hátíðaráðstafanir verða endurmetnar að jólum yfirstöðnum, á þrettándanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×