Singh er talinn bera höfuðábyrgð á nokkrum helstu efnahagsumbótum í frjálslyndisátt sem gerðar voru í landinu í byrjun aldarinnar.
Greint var frá andláti Singh í gær en hann hafði verið lagður inn á sjúkrahús í höfuðborginni Delí eftir að heilsu hans hafði hrakað.
Forsætisráðherrann Narendra Modi var í hópi þeirra sem minntist Singh í gær og sagði Indland „nú syrgja einn af sínum virtustu leiðtogum“.
Singh var fyrsti forsætisráðherra landsins síðan Jawaharlal Nehru sem var endurkjörinn eftir að hafa setið heilt kjörtímabil og var sömuleiðis fyrsti sikkinn til að gegna embættinu.
Í frétt BBC segir að hann hafi fyrir hönd stjórnar landsins beðist afsökunar á þinginu fyrir óeirðunum í landinu árið 1984 þar sem um þrjú þúsund sikkar létu lífið.
Seinna kjörtímabil hans einkenndist af röð hneykslis- og spillingarmála sem tengdust stjórn hans og leiddi til þess að flokkur hans beið afhroð í kosningunum 2014.