Innlent

Eldur og skemmdir vegna flug­elda

Lovísa Arnardóttir skrifar
Víða á höfuðborgarsvæðinu hefur fólk verið að sprengja flugelda síðustu daga. Það hefur ekki alltaf endað vel. 
Víða á höfuðborgarsvæðinu hefur fólk verið að sprengja flugelda síðustu daga. Það hefur ekki alltaf endað vel.  Vísir/Egill

Lögreglu var í nótt tilkynnt um eld á svölum í Grafarvogi sem talið er að hafi kviknað út frá flugeldum sem var skotið á svalirnar. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að eldurinn hafi verið töluverður.

Þá kemur fram að lögreglu hafi verið tilkynnt um ungmenni að sprengja flugelda í verslunarmiðstöð í Breiðholti en þar hafi ekki verið neinar skemmdir og allir farnir þegar lögregla kom.

Þá var tilkynnt um minniháttar skemmdir á bílum í Grafarholti eftir flugeldasprengingar. Málið er í rannsókn hjá lögreglu, sem og skemmdir á gróðurhúsi í Mosfellsbæ.

Þrír gistu í fangaklefa lögreglunnar í nótt. Alls voru 50 mál bókuð á tímabilinu 17 í gær til fimm í nótt. Í dagbók lögreglu kemur fram að þrír hafi gist í fangaklefa og þrír hafi verið kærðir fyrir að aka yfir á rauðu ljósi. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. 

Þá hafði lögregla afskipt af manni í miðborg Reykjavíkur. Fram kemur í dagbókinni að hann hafi hlaupið á brott og þá verið eltur af lögreglumanni. Við öryggisleit fundust á manninum fíkniefni og talsvert magn af reiðufé. Maðurinn er því grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Auk þess var hann ekki með skilríki og gat ekki gert grein fyrir dvöl sinni á Íslandi en hann er erlendur ríkisborgari. Maðurinn var handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×