Innlent

Gæslu­varð­hald í stóru fíkniefnamáli fram­lengt

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Gríðarlegt magn fíkniefna fannst í skrifstofuhúsnæði í Kópavogi. Mynd er úr safni.
Gríðarlegt magn fíkniefna fannst í skrifstofuhúsnæði í Kópavogi. Mynd er úr safni. Vísir/Vilhelm

Þrír karlmenn hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 20. janúar. Þeir eru sakaðir um stórfellt fíkniefnalagabrot. Lögregla lagði hald á mikið magn fíkniefna í byrjun október.

Í byrjun október voru þrír karlmenn handteknir eftir að lögregla lagði hald á „gríðarlegt magn“ fíkniefna sem geymd voru í skrifstofuhúsnæði í Kópavogi. Um var að ræða tæp þrjú kíló af MDMA-kristöllum og 1781 stykki af MDMA-töflum. 

Mennirnir þrír hafa sætt gæsluvarðhaldi frá 3. október en var það þann 20. desember framlengt um mánuð, til 20. janúar 2025. Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar.

Lögregla frétti af miklu magni fíkniefna í skrifstofurýminu. Fóru þeir á staðinn og skiptu efninu út fyrir gerviefni en ásamt því voru settar upp upptökuvélar. Á þeim upptökum sáust mennirnir þrír koma og sækja efnin. Tveir þeirra tóku fíkniefnin með sér í eina bifreið en sá þriðji var sóttur af öðrum ökumanni á annarri bifreið. Voru bílarnir tveir keyrðir í sitt hvora áttina. Í kjölfarið handtók lögregla mennina.

Við húsleit á heimili fannst einnig umtalsvert magn fíkniefna. 

Mennirnir þrír neituðu allir sök en í fjórðu skýrslutöku breytti einn þeirra fyrri framburði sínum og sagðist eiga öll fíkniefnin. Hann hefði beðið hina mennina um að geyma og fela efnin fyrir sig. 

Á upptökum lögreglu sjást allir mennirnir ná í fíkniefnin í skrifstofuhúsnæðinu, falda upp á fölsku lofti. Lögregla telur ljóst að allir þrír hafi vitað af rýminu og hvað þar væri að finna.

Rannsókn málsins er lokið. Héraðssaksóknari hefur höfðað sakamál á hendur mannanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×