Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði minnkandi norðaustlæg átt í dag, gola eða kaldi síðdegis. Spáð er fimm til þrettán m/s og snjókomu með köflum en hvassara syðst.

Snjókomubakki yfir Suðurlandi þokist nú til vesturs og líkur á snjókomu á suðvesturhorninu fyrir hádegi. Styttir upp og léttir víða til seinnipartinn, en áfram dálítil él norðan- og austantil.
Talsvert frost, um fjögur til 21 stig og kaldast inn til landsins.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Vestan fimm til þrettán m/s og víða él, en bjart með köflum á Suðausturlandi. Frost núll til tíu stig, minnst við suðurströndina.
Á föstudag: Breytileg átt, þrír til tíu m/s og él víða um land, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Áfram svalt í veðri.
Á laugardag: Fremur hæg norðlæg átt og lítilsháttar él, en léttir til sunnan heiða og herðir á frosti.
Á sunnudag og mánudag: Útlit fyrir kalda norðanátt með éljum, en bjartviðri sunnantil.