Innlent

Stefanía að­stoðar Hönnu Katrínu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Stefanía Sigurðardóttir er framkvæmdastjóri þingflokksins Viðreisnar.
Stefanía Sigurðardóttir er framkvæmdastjóri þingflokksins Viðreisnar. Vísir/Vilhelm

Stefanía Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar, verður aðstoðarmaður Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra.

Þetta staðfestir Hanna Katrín í samtali við fréttastofu. 

Stefanía hóf störf fyrir flokkinn árið 2016 sem kosningastjóri. Þá varð hún framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar árið 2017. Fyrir það starfaði hún sem verkefnastjóri viðburða á markaðssviði Háskólans í Reykjavík.

Stefanía segir verkefnið framundan vera ótrúlega spennandi. Nú sé fyrsta formlega vinnuvikan, þó hún hafi heimsótt ráðuneytið á milli jóla og nýárs.

„Þetta er stórt og mikið ráðuneyti sem verður gaman að takast á við,“ segir hún í samtali við fréttastofu.

Stefanía sat í kosningastjórn Guðna Th. Jóhannessonar í framboði hans árið 2016. Þá kláraði hún BA gráðu í listrænni viðburðastjórnun árið 2011 frá Rose Bruford College í London.

Hanna Katrín segir ekki ólíklegt að annar aðstoðarmaður verði ráðinn. 

„Mér finnst ekki ólíklegt að svo verði en ég hef enga ákvörðun tekið enn,“ segir Hanna Katrín.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×