Sæþór Benjamín Randalsson, stjórnarmaður í Eflingu, lýsti veitingageiranum sem „leikvelli fyrir misheppnuð börn auðmanna“ í færslu sem hann skrifaði á Facebook á mánudag. Eigendur veitingahúsa krefðust hagnaðar af þeim til þess að fjármagna „íburðarmikinn lífsstíl“ sinn.
„Eigendur eru sníkjudýraflokkur, sem koma til móts við aðeins lægri flokk sníkjudýra,“ skrifaði Sæþór sem situr einnig í framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins.
Fyrr í færslunni hélt Sæþór því fram að miðstéttarfólki sem sækti veitingastaði hefði verið „mútað“ með löngum hádegisverði, stuttum vinnudögum og háum launum. Með færslunni fylgdi mynd af Aðalgeir Ásvaldssyni, framkvæmdastjóra SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, sem Sæþór hafði teiknað á trúðsgervi.

Aðalgeir segir ummæli Sæþórs sýna viðhorf forsvarsmanna Eflingar svart á hvítu í aðsendri grein sem hann skrifaði á Vísi í morgun. Þau einkennist af málefnafátækt, upphrópanastíl, ósannindagraut og veruleikafirringu.
„Málflutningur af þessu tagi er íslenskri verkalýðshreyfingu til skammar, en sýnir á sama tíma á hvaða leið Efling er í fordæmalausri aðför að íslenskum veitingageira,“ skrifar Aðalgeir.
Deilur um meintan „gervikjarasamning“
Forsvarsfólk Eflingar og SVEIT hafa eldað grátt silfur saman að undanförnu. Efling hefur ítrekað sakað SVEIT um að standa að baki Virðingu sem sé „gervistéttarfélag“ sem hlunnfari starfsfólk veitingahúsa. Kjarasamningur sem SVEIT og Virðing hafi undirritað sé „gervikjarasamningur“.
Á Þorláksmessu nafngreindi Efling fimm veitingastaði sem félagið hélt fram að stæði að baki Virðingu. Í kjölfarið skrifaði Aðalgeir grein þar sem hann sagði Eflingu stærstu ógnina við starfsöryggi starfsfólks veitingahúsa. Ummæli Sæþórs á mánudags voru sett fram í samhengi við þau orð.
Í grein sinni í dag endurbirtir Aðalgeir nokkur ummæla Sæþórs, meðal annars um sníkjudýr og þar sem starfsfólki veitingahúsa var líkt við fanga.
„Hvert erum við komin í kjarasamningsmálum þegar þetta viðhorf, þessi sýn, mótar samningsaðila? Hvernig á nokkur að geta sest að samningaborði við verkalýðshreyfingu með milljarða á milli handanna þegar svona hugsanir ráða för?“ skrifar Aðalgeir.