Fótbolti

Olmo og Victor í al­gjörri ó­vissu eftir að beiðni Barcelona var hafnað

Sindri Sverrisson skrifar
Spænski landsliðsmaðurinn Dani Olmo fær ekki að spila með Barcelona í dag og að óbreyttu ekki aftur fyrr en í haust.
Spænski landsliðsmaðurinn Dani Olmo fær ekki að spila með Barcelona í dag og að óbreyttu ekki aftur fyrr en í haust. Getty/Ulrik Pedersen

Beiðni Barcelona um að Dani Olmo og Pau Victor verði skráðir hjá félaginu hefur verið hafnað og Börsungar hyggjast nú leita til spænskra stjórnvalda vegna málsins.

Spænska knattspyrnusambandið og La Liga sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í dag um að beiðni Barcelona hefði verið hafnað. Ekkert hefur breyst í þeirra afstöðu frá því að La Liga sendi út yfirlýsingu á gamlársdag þess efnis að leikmennirnir fengju ekki áframhaldandi leikheimild.

Að óbreyttu munu þeir Olmo, sem kom frá RB Leipzig fyrir 60 milljónir evra í sumar, og Victor því ekki fá að spila fyrir Barcelona fyrr en á næstu leiktíð.

The Athletic segir að Barcelona mun nú fara með málið til Íþróttaráðsins (Consejo Superior de Deportes), æðstu íþróttamálastofnunar spænska ríkisins. Segir í grein miðilsins að Börsungar vonist til þess að fá þannig bráðabirgðaleikheimild fyrir leikmennina vegna þess tíma sem tekið gæti að fá endanlega niðurstöðu í málið.

Barcelona hefur lengi verið í miklum fjárhagserfiðleikum en er ekki lengur háð ströngum takmörkunum um nýskráningar leikmanna, eftir að hafa í gærkvöld sýnt fram á tekjur af sölu í sérstök VIP-svæði á leikvangi sínum.

Það breytir því hins vegar ekki að tíminn til að skrá Olmo og Victor rann út um áramótin án þess að Barcelona gæti sannað að félagið stæðist reglur La Liga um fjárhagslegt aðhald.

Leikmennirnir eru því ekki í leikmannahópi Barcelona í bikarleiknum gegn neðrideildarliði Barbastro í dag og óvissa ríkir um framhaldið. Hansi Flick, þjálfari Barcelona, sagðist á blaðamannafundi í gær „óánægður“ með stöðuna en að hann biði þess að vita hver niðurstaðan yrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×