Erlent

Austurríkis­kanslari segir af sér eftir árangurs­lausar við­ræður

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Karl Nehammer hefur verið kanslari frá árinu 2021.
Karl Nehammer hefur verið kanslari frá árinu 2021. Sean Gallup/Getty

Karl Nehammer, kanslari Austurríkis, hefur ákveðið að segja af sér embætti. Hann tók ákvörðun um það eftir að ljóst varð að stjórnarmyndunarviðræður flokks hans, Þjóðarflokksins, og Sósíaldemókrata myndu ekki bera árangur. 

Þetta tilkynnti Nehammer á samfélagsmiðlinum X í kvöld. Hann sagðist myndu segja formlega af sér á næstu dögum. Flokkurinn Nýtt Austurríki átti einnig sæti við stjórnarmyndunarborðið en sagði sig frá viðræðunum í gær.

„Við höfum reynt allt fram að þessu. Samkomulag um lykilatriði virðist ekki mögulegt, svoleiðis að viðræðurnar eru ekki lengur skynsamlegar með jákvæða framtíð Austurríkis í huga,“ sagði Nehammer í sjónvarpsávarpi. 

Kosið var til þings í Austurríki í september, en stjórnarmyndunarviðræður hafa enn ekki borið árangur. Frelsisflokkurinn, sem er lengst til hægri þeirra flokka sem náðu máli, er stærstur með 29 prósent atkvæða. Forsvarsmenn annarra flokka hafa þó útilokað samstarf við hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×