Real Madrid vann leikinn 5-0 eftir að hafa skorað þrjú mörk á fyrsta hálftíma leiksins.
Deportiva Minera er í D-deild spænska boltans og því þremur deildum fyrir neðan Real.
Þessi úrslit koma því ekki mikið á óvart og Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, ákvað líka að hvíla lykilmenn sína í leiknum.
Menn eins og Vinícius Júnior, Kylian Mbappé og Jude Bellingham byrjuðu allir á bekknum. Vinícius og Mbappé komu báðir inn á sem varamenn síðasta hálftíma leiksins.
Federico Valverde skoraði fyrsta markið strax á fimmtu mínútu og Eduardo Camavinga bætti við öðru marki á fjórtándu mínútu. Arda Güler kom Real síðan í 3-0 á 28. mínútu eftir stoðsendingu frá Federico Valverde.
Valverde var með mark og stoðsendingu í fyrri hálfleiknum og var tekinn af velli í hálfleik.
Luka Modric skoraði fjórða markið á 55. mínútu eftir stoðsendingu frá Brahim Diaz.
Tyrkinn Güler bætti við sínu öðru marki í leiknum tveimur mínútum fyrir leikslok.
Braslíski táningurinn Endrick spilaði í fremstu víglínu hjá Real en náði ekki að komast á blað í leiknum.
Þetta var samt sannkölluð stórskotahríð því leikmenn Real Madrid reyndu 33 skot í leiknum. Umræddur Endrick átti sex þeirra. Alls fékk Real sextán góð marktækifæri en mörkin urðu bara fimm.