Fram kemur í tilkynningu frá flokknum að stjórn þingflokks Samfylkingar hafi verið kjörin á þingflokksfundi í dag. Guðmundur Ari Sigurjónsson var kjörinn þingflokksformaður, Arna Lára Jónsdóttir verður varaformaður stjórnar þingflokks og Kristján Þórður Snæbjarnarson ritari. Öll eru þau nýir þingmenn flokksins.
Fram kemur í tilkynningunni að kosningin hafi verið samhljóða og samkvæmt tillögu formanns. Guðmundur Ari tekur við stöðu þingflokksformanns af Loga Einarssyni sem nú hefur tekið til starfa sem menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
„Það er mikil ábyrgð og heiður sem fylgir því vera formaður í þingflokki jafnaðarmanna. Samfylkingin hefur átt öflugan þingflokk og eftir kosningar fjölgaði verulega í hópnum. Ég hlakka til að vinna með þessu fjölhæfa fólki í góðu samstarfi við ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur og aðra flokka á Alþingi. Við höfum verk að vinna,“ er haft eftir Guðmundi Ara um kjörið í tilkynningunni.
Guðmundur Ari hefur verið formaður framkvæmdastjórnar í Samfylkingunni frá landsfundi haustið 2022 en lætur nú af þeirri stöðu. Hann hefur setið í sveitarstjórn á Seltjarnarnesi frá árinu 2014.
Dagur ekki á blaði
Margir höfðu velt vöngum yfir því hvort Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, yrði útnefndur þingflokksformaður. Þótt Dagur sé einnig nýr á þingi líkt og Guðmundur Ari er hann einn reynslumesti stjórnmálamaðurinn í þingflokki Samfylkingarinnar, þó af vettvangi sveitarstjórnarmála.
Ummæli Kristrúnar Frostadóttur, sem birtust opinberlega í aðdraganda kosninga, þar sem hún segir Dag vera aukaleikara og ekki ráðherraefni flokksins vöktu mikla athylgi og umtal. Nú liggur fyrir að Dagur verður hvorki ráðherra né þingflokksformaður. Enn á eftir að koma í ljós hverjir fara með formennsku í þingnefndum og gegna hlutverki varaforseta Alþingis.
Fréttin hefur verið uppfærð.