Liðin áttust við í undanúrslitum spænska ofurbikarsins í gærkvöld og voru Greif og Rodriguez báðir í liði Mallorca sem varð að sætta sig við 3-0 tap.
Keppnin hefur farið fram í Sádi-Arabíu frá árinu 2022, fyrstu þrjú árin í Riyadh en að þessu sinni í borginni Jeddah, en fyrir það fær spænska knattspyrnusambandið jafnvirði um 5,6 milljarða króna á ári.
Þær Palavra og Kaluzova voru ásamt fleirum á leið af leikvanginum þegar aðsúgur var gerður að þeim.
„Það var svolítið flókið að komast í burtu. Við vorum með börnin og það var engin öryggisgæsla. Sannleikurinn er sá að það voru strákar frá þessu landi sem að fóru að taka myndir af okkur og áreita okkur,“ sagði Palavra við Esports IB3, samkvæmt frétt Marca.
„Það sama henti Nataliu, eiginkonu Dominik Greif. Ég var með dóttur mína sem var sofandi. Okkur leið óþægilega. Við vorum ekki með neinn til að vernda okkur. Það gekk mjög illa að komast í burtu,“ sagði Palavra.
Tóku myndbönd og gripu í þær
Kaluzova sagði við Marca: „Mennirnir tóku myndbönd af okkur, ýttu okkur og gripu í okkur, skelltu símum framan í andlitið á okkur og tóku myndbönd.“
Forráðamenn Mallorca segja að um 250 manns hafi orðið fyrir áreitni þegar fólkið yfirgaf leikvanginn. Quique Darder, pabbi miðjumannsins Sergi Darder, lýsti aðstæðum sem umsátursástandi sem varað hefði í um 15-20 mínútur, þangað til rútur komu að sækja fólkið.
Spænska knattspyrnusambandið segir að öryggisverðir á vegum sambandsins hafi verið sendir á vettvang um leið og frést hafi af ástandinu.
Real Madrid og Barcelona mætast í úrslitaleik keppninnar á sunnudaginn.