Erlent

„Við viljum ekki vera Banda­ríkja­menn“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Múte B. Egede, formaður landstjórnar Grænlands, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur héldu sameiginlegan blaðamannafund í dag.
Múte B. Egede, formaður landstjórnar Grænlands, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur héldu sameiginlegan blaðamannafund í dag. AP/Mads Claus Rasmussen

Formaður landstjórnar Grænlands segir aukinn áhuga Bandaríkjanna á landinu jákvæðan. Bandaríkin væru meðal nánustu bandaþjóða en sagði skýrt að Grænlendingar hefðu ekki áhuga á að gerast Bandaríkjamenn.

Múte B. Egede, formaður landstjórnarinnar, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, héldu sameiginlegan blaðamannafund í Kristjánsborgarhöll í dag. Mikið hefur verið fjallað um Grænland og framtíð þess í kjölfar hótana Donald Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta, að innlima landið.

Finnur fyrir sterkum sjálfstæðisvilja

Mette segir Grænlendinga eina geta svarað spurningunni um framtíð Grænlands.

„Hvað varðar sjálfstæði, byrjar sú ákvörðun og endar í Nuuk. Grænland tilheyrir Grænlendingum. Þeir ákvarða sjálfir eigin framtíð. Ég finn fyrir sterkum vilja til að stefna í átt að sjálfstæði,“ segir forsætisráðherrann og það tekur Múte undir:

Sjá einnig: Af hverju langar Trump í Grænland?

„Baráttan fyrir sjálfstæðinu er ekki ný af nálinni. Grænland tilheyrir Grænlendingum. Við viljum ekki vera Danir. Við viljum ekki vera Bandaríkjamenn. Við viljum vera Grænlendingar,“ segir Múte B. Egede, formaður landstjórnar Grænlands.

Óbreytt ástand ekki mögulegt til frambúðar

Hann segir samstarfið við Bandaríkin þó mikilvægt og að það muni halda áfram.

„En það skal einnig grundvallast á okkar gildum. Samvinna krefst samskipta, að vinna saman, finna lausnir. Það er mikilvægt að vinir ræði saman,“ segir hann.

Sjá einnig: Ó­vænt skila­boð leiddu til ferðar með syni Trumps

„Það sem við viljum er að ná árangri í efnahagsmálum okkar og að öðlast meira sjálfstæði,“ segir Múte.

Í samtali við fréttamann grænlenska ríkisútvarpsins í kjölfar fundarins segir Múte að núverandi samband Grænlands og Danmerkur gangi ekki lengur.

„Allt fram á í dag og síðustu daga hefur óbreytt ástand ekki verið mögulegt. Það höfum við gert skýrt margoft. Við þurfum að fara nýja leið,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×