Að sögn lögreglu tjónuðust yfir tuttugu bílar á höfuðborgarsvæðinu í gær og eftir að hafa verið ekið ofan í holu í flestum tilfellum neyddust ökumenn til að skipta um dekk áður en þeir gátu haldið áfram leiðar sinnar.
Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri rekstur og umhirðu hjá Reykjavíkurborg, segir þetta vandamál fylgja veðurbreytingunum.
„Um leið og það leysir snjó með svona snöggum hætti koma holur í malbikið yfirleitt mjög vel fram og það er vegna hitabreytinganna á milli forsts og þíðu. Þetta er bara venjulegt verkefni sem gerist alltaf við þessar aðstæður,“ segir Hjalti.
Nóg sé því að gera hjá teyminu sem sér um að fylla upp í holurnar.
„Þetta er í raun og veru eina verkefnið okkar í dag og verður vænatnlega á morgun og hinn. Við fáum fullt af ábendingum og erum líka að leita sjálf á þessum hefðbundna rúnti um borgina og reynum að gera við það sem við sjáum.“

Tugir holumála séu á borði borgarinnar og Hjalti býst við að þeim fjölgi. Einnig sé verið að sinna hálkutilkynningum.
„ Það er um að gera að fara varlega þar sem er mikil hálka. Nota mannbrodda og gera það sem hægt er að gera til þess að forðast slysin.“