Umræðan

Barna­fjöl­skyldur flýja höfuð­borgar­svæðið

Sigurður Stefánsson skrifar

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, Höfuðborgarsvæðið 2040, sem var samþykkt árið 2015 á að vera „… drifkraftur fyrir farsæla uppbyggingu nútíma borgarsvæðis þar sem unnið verði að sjálfbærri þróun.“ Samkvæmt skipulaginu á að stýra vexti á svæðinu með vaxtarmörkum þar sem byggð sveitarfélaganna á svæðinu er einungis leyfð innan þeirra. Nú, tíu árum síðar, hefur ýmislegt þróast til betri vegar en þar má nefna að byggðin er orðin þéttari og forsendur fyrir fjölbreyttar samgöngur hafa styrkst. Á hinn bóginn hefur drifkraftur uppbyggingar ekki verið í neinu samræmi við fjölgun íbúa en forsendur skipulagsins um fjölgun íbúa og þörf fyrir íbúðir eru brostnar. 

Íbúum á svæðinu fjölgaði 75% umfram forsendur svæðisskipulagsins og þá var ekki gert ráð fyrir áhrifum af breyttu búsetumynstri vegna öldrunar þjóðarinnar þar sem sífellt færri einstaklingar búa í hverri íbúð með þeim afleiðingum að í dag vantar 12 til 15 þúsund íbúðir í viðbót við þær 94 þúsund sem fyrir eru á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðaskortur og gríðarlegar verðhækkanir á fasteignum hafa nú hrakið barnafjölskyldur til nærliggjandi byggðarlaga, Akraness, Árborgar og Suðurnesja, en íbúavöxtur þeirra hefur verið mun hraðari en á höfuðborgarsvæðinu. Flótti barnafjölskyldna sést best á að börnum á leikskólaaldri fækkaði í Reykjavík um 7% frá því svæðisskipulagið tók gildi.

Höfuðborgarsvæði er hluti heildar

Skipulag höfuðborgarsvæðisins þjónar íbúum sem búa og vilja búa í borg og njóta fjölbreytni og þjónustu sem fjölmennið býður upp á. Höfuðborgarsvæðið þjónar landinu öllu og er hluti af heild en ekki einangrað félagslegt vistkerfi. Skipulag sem hefur þá sýn að vinna að sjálfbærri þróun tekur tillit til bæði nágranna og alls samfélagsins. Nauðsynlegt er að skoða áhrif ákvarðana og aðgerða á bæði nærliggjandi umhverfi og á heildina. Frá árinu 2015 hefur Íslendingum fjölgað um 20% en á sama tíma hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins aðeins fjölgað um 15% sem þýðir að svæðið hefur ekki haldið í við fjölgun þjóðarinnar á tímum þegar borgir og borgarsamfélög vaxa hraðar en nokkru sinni fyrr. Fjölgun íbúa í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu en Reykjavík er hins vegar nærri fólksfjölgun á landinu öllu eða um 25%.

Innviðir höfuðborgarsvæðisins hafa ekki verið nýttir eins vel og kostur var en á sama tíma hefur átt sér stað innviðauppbygging í nágrannabyggðum. Að þessu leyti hefur sýnin að baki skipulagi höfuðborgarsvæðisins um að stuðla að sjálfbærri þróun snúist upp í andhverfu sína.

Íbúum í nágrannabyggðum fjölgaði rúmlega þrisvar sinnum hraðar en í Reykjavík

Athyglisvert er að íbúum nágrannabyggða höfuðborgarsvæðisins fjölgaði mest eða um 47% frá 2015 en það er nær helmingi meira en á höfuðborgarsvæðinu og þrisvar sinnum meira en í höfuðborginni (sjá mynd 1). Á Suðurnesjum, Akranesi og í Árborg fjölgaði um 12.300 manns á árunum 2015 til 2023 sem svarar til þess að Reykvíkingum hefði fjölgað um 80 þúsund og væru 200 þúsund en ekki 134 þúsund eins og þeir eru í dag. Í ljósi þess að uppbygging íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki náð markmiðum svæðisskipulags og þaðan af síður haldið í við fólksfjölgun í landinu er eðlilegt að álykta að aukningin í nágrannabyggðum umfram fólksfjölgun í landinu sé vegna þess að ekki hefur verið nægt framboð af húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

Mynd 1.

Þvert á markmið með styttingu vinnuvikunnar og um sjálfbæra þróun

Innan vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins hafa ekki orðið til nægjanlega margar nýjar íbúðir til að mæta þörfum íbúa sem hafa leitað annað, mest til nágrannabyggðalaganna. Þessir íbúar og aðrir á Suðurnesjum, Akranesi og í Árborg eiga margvísleg erindi til höfuðborgarsvæðisins vegna atvinnu eða til að sækja þjónustu og er samgöngumátinn oftast einkabíllinn. Að undanförnu hefur samfélagið kostað miklu til að stytta vinnuviku fólks í þeim tilgangi að draga úr álagi, þreytu og streitu og auka hreyfingu fólks og lífsgæði.

Þessi markmið fara fyrir lítið ef æ fleiri þurfa að leita sér að húsnæði út fyrir jaðra höfuðborgarsvæðisins en sækja þangað áfram vinnu og þjónustu. Þá er jafnframt ljóst að vistspor samgangna hefur aukist meira en ella og innviðir höfuðborgarsvæðisins hafa ekki verið nýttir eins vel og kostur var en á sama tíma hefur átt sér stað innviðauppbygging í nágrannabyggðum. Að þessu leyti hefur sýnin að baki skipulagi höfuðborgarsvæðisins um að stuðla að sjálfbærri þróun snúist upp í andhverfu sína.

Breytingar á barnafjölskyldum – nær allir nýir íbúar höfuðborgarinnar fullorðnir

Við frekari skoðun á lýðfræðilegum gögnum vekja athygli breytingar á aldurssamsetningu íbúa á á höfuðborgarsvæðinu. Börnum á leikskólaaldri, fram að fimm ára aldri, fækkaði á höfuðborgarsvæðinu um 2% og um 7% í Reykjavík frá gildistöku svæðisskipulagsins árið 2015 en fjölgaði á hinn bóginn um 6% í sveitarfélögunum næst höfuðborginni. Á sama tíma fjölgar börnum í þeim aldursflokki um 17% í nágrannabyggðalögunum (sbr. mynd 2). Þá sjáum við að börnum á grunnskólaaldri fjölgar um 10 - 11% á höfuðborgarsvæðinu á meðan grunnskólabörnum í jaðarbyggðum fjölgar mun hraðar eða um 26%.

Mynd 2.

Þegar rýnt er í samsetningu mannafjöldaaukningarinnar 2015 – 2023 er hún verulega frábrugðin í höfuðborginni borið saman við byggðirnar nærri höfuðborgarsvæðinu. Börn (0-17 ára) eru einungis einn af hverjum 18 nýjum íbúum í Reykjavík eða aðeins 6% sem þýðir að af hverjum 18 nýjum Reykvíkingum eru 17 fullorðnir. Til samanburðar er einn af hverjum 8 í hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu barn sem nemur um 11% og einn af hverjum 7 í nágrannabyggðum höfuðborgarsvæðisins eða um 15% (sjá mynd 3).

Mynd 3.

Þetta eru skýrar vísbendingar um að barnafjölskyldur flytja í ríkari mæli frá höfuðborgarsvæðinu því þær eiga ekki kost á búsetu þar. Sömuleiðis er það sterk vísbending um hver þróunin er þegar fólki á vinnualdri, þ.e. 18 ára og eldri fjölgar um nær 50% í jaðarbyggðum höfuðborgarsvæðisins.

Gagnamiðuð stefnumótun og eftirfylgni grunnforsenda góðrar byggðarþróunar

Skipulag og áætlanir um uppbyggingu byggðalaga eiga að vera stefnumótandi til að tryggja markvissa og sjálfbæra byggðaþróun. Svæðisskipulag er stjórntæki sem þarf að taka tillit til og spá fyrir um húsnæðisþarfir samfélagsins, stuðla að hagkvæmri uppbyggingu, auka húsnæðisöryggi og tryggja jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði.

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2015 hefur aðeins þjónað tilgangi sínum að hluta. Markmið um þéttingu byggðar er á góðri leið en þegar kemur að þeim þáttum sem snúa að framboði íbúða í samræmi við fjölgun íbúa og breyttu búsetumynstri þá miðar hægt og jafnvel í öfuga átt sem endurspeglast í því að íbúar hafa í meira mæli flutt til nágrannasveitarfélaganna með þeim afleiðingum að markmið sjálfbærrar þróunar hafa fjarlægst.

Höfundur er framkvæmdastjóri Aflvaka þróunarfélags sem hefur að markmiði að auka lífsgæði fólks á efri árum með sérhæfðum búsetuúrræðum.


Tengdar fréttir

Borgar­sam­félag á hröðu breytinga­skeiði

Íbúðahverfi sem byggja þarf á næstu áratugum þurfa að mæta þörfum fólks sem eru 60 ára og eldri í mun ríkari mæli en gert hefur verið og sjá má enn í dag í drögum að nýjum og óbyggðum hverfum. Skipulag hverfa, uppbygging innviða og hönnun híbýla þarf að taka mið af félagslegum þörfum fólks á þriðja og fjórða æviskeiði.




Umræðan

Sjá meira


×