Í upphafi hvers árs er mikið um að vera hjá ferðaþjónustufólki sem kemur saman til að ráðfæra sig við hvert annað, finna nýjar hugmyndir og skapa verðmæti. Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er haldið í Kópavogi og samhliða því er heil vika af spennandi viðburðum með mismunandi áherslum. Þar er meðal annars rætt um tækniþróun, ráðstefnur, sjálfbærni og auðvitað markaðssetningu. Nú eru liðin 11 ár frá því að hugmyndin um Mannamót varð til í einu af mörgum samtölum Markaðsstofanna um hvernig mætti efla íslenska ferðaþjónustu og vinna að dreifingu ferðafólks um landið. Þessi hugmynd um að skapa vettvang fyrir landsbyggðarfyrirtækin til að koma saman í höfuðborginni og eiga þar fundi með ferðaþjónustunni er nú orðin að stærsta kynningarviðburði ferðaþjónustunnar og farin að vekja áhuga erlendra ferðaskrifstofa.
Markaðssetning til lengri tíma er mikilvæg. Til þess að efla ferðaþjónustuna í verðmætasköpun þarf að tala saman, vinna í sömu átt og segja frá Íslandi. Náttúran er okkar stóra aðdráttarafl og hefur náðst að kynna vel hversu stórfengleg hún er á öllum tímum ársins. Þjónusta er að byggjast upp jafnt og þétt til að taka á móti ferðafólkinu og er jákvætt að sjá í nýjustu tölum um fjölda ferðamanna hvernig vetrarferðaþjónustan er að sækja í sig veðrið enda er næg þjónusta í boði á þeim árstíma og mikil tækifæri til að nýta fjárfestinguna betur og skapa heilsársstörf.
Ferðaþjónustan er byggð upp af öflugu fólki, frumkvöðlum sem hafa sýnt af sér mikla þrautseigju og hugmyndaauðgi. Þessi hópur sem kemur úr öllum áttum er grunnurinn að stærstu atvinnugrein landsins þegar horft er til landsframleiðslu. Þessi atvinnugrein skilar ekki eingöngu verðmætum inn í landið heldur byggir upp mikil lífsgæði fyrir íbúa með uppbyggingu þjónustu um allt land. Það er ekki sjálfgefið að ná þeim árangri sem Ísland hefur náð undanfarin ár í þróun og markaðssetningu ferðaþjónustunnar. Fagmennska, menntun, stöðug þróun og öflug markaðssetning er lykillinn að árangri og þessu fögnum við saman á Mannamótum og í ferðaþjónustuvikunni.
Höfundur er talsmaður Markaðsstofa landshlutanna og framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.