„Ég get ekki farið út í smáatriði. Ég get eingöngu staðfest þann ótta að Rússar voru að skipuleggja hryðjuverkaárásir í háloftunum. Ekki eingöngu gegn Póllandi, heldur gegn flugfélögum víðsvegar um heiminn,“ sagði Tusk á blaðamannafundi með Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, í dag, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Tusk var líklega að tala um eldsprengjur sem Rússar hafa verið sakaðir um að reyna að senda með flugvélum til Bandaríkjanna og Kanada. Tvær slíkar sprengjur sprungu í sumar, önnur í Bretlandi og hinn í Þýskalandi, og þar að auki eru tvær sagðar hafa fundist í Póllandi.
Spjótin hafa beinst að leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) og hafa fregnir borist af því að helstur ráðgjafar Joes Biden, fráfarandi Bandaríkjaforseta, hafi lagt mikið kapp á að koma viðvörunum til Vladimírs Pútin, forseta Rússlands, um að þessar sprengjusendingar yrðu ekki liðnar.
Sjá einnig: Lögðu kapp á að senda Pútín viðvörun vegna eldsprengja
Undanfarna mánuði og jafnvel ár hafa rússneskir útsendarar verið sakaðir um fjölda skemmdarverka, íkveikja og morða, svo eitthvað sé nefnt, í Evrópu. Í einu tilfelli ætluðu rússneskir útsendarar sé að ráða forstjóra Rheinmetall, eins stærsta hergagnaframleiðanda Evrópu, af dögum.
Sjá einnig: Segir skemmdarverk Rússa í Evrópu geta leitt til átaka
Ráðamenn í Póllandi hafa meðal annars sakað Rússa um að bera ábyrgð á íkveikjuárásum og öðrum skemmdarverkum í Póllandi. Pólverjar létu Rússa loka einni af þremur ræðismannsskrifstofum þeirra í Póllandi í fyrra.