Innlent

Ný­skipaður varaseðlabankastjóri peninga­stefnu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þórarinn G. Pétursson hefur verið skipaður varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Þórarinn G. Pétursson hefur verið skipaður varaseðlabankastjóri peningastefnu. Seðlabanki Íslands

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur skipað Þórarin G. Pétursson í embætti varaseðlabankastjóra peningastefnu til fimm ára frá og með deginum í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þórarinn tekur við af Rannveigu Sigurðardóttur sem gegndi embættinu frá 1. janúar 2020 til loka árs 2024.

Embættið var auglýst laust til umsóknar 19. september 2024 og kemur fram í tilkynningunni að sjö umsóknir hafi borist en einn umsækjandi dregið umsókn sína til baka. 

„Ráðgefandi hæfnisnefnd mat Þórarin einn umsækjenda mjög vel hæfan til að gegna embættinu en aðrir umsækjendur voru ýmist metnir vel hæfir eða hæfir. Forsætisráðuneytið lagði sjálfstætt mat á störf hæfnisnefndar og umsækjendur voru allir teknir í viðtal hjá forsætisráðherra. Var það niðurstaða forsætisráðherra að Þórarinn væri hæfastur til að gegna embættinu,“ segir í tilkynningunni.

Víðtæk reynsla og þekking á peningamálum

Þórarinn er með Cand. Oecon próf í hagfræði frá Háskóla Íslands, meistarapróf í hagfræði frá Essex-háskóla í Bretlandi og doktorspróf í hagfræði frá Árósa-háskóla í Danmörku.

Þá segir í tilkynningunni að Þórarinn hafi starfað í Seðlabanka Íslands frá árinu 1994. Frá árinu 2009 hefur hann verið aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs og á árunum 2009 til 2019 sat hann í peningastefnunefnd bankans.

Áður starfaði Þórarinn sem forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar hagfræðisviðs og sem deildarstjóri hagrannsókna auk þess sem hann ritstýrði ársfjórðungsritinu Peningamálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×