Auglýsingin átti að minna á þá staðreynd að flugfélagið væri að hefja flug til Parísar, höfuðborgar Frakklands á ný eftir nokkurt hlé. Því var birt mynd í helstu miðlum af farþegaþotu félagsins sem virðist vera í þann mund að fljúga beint á Eiffel turninn, helsta kennileiti borgarinnar.
Með fylgdi textinn: „París, við erum á leiðinni.“
Auglýsingin vakti strax hörð viðbrögð og hefur henni verið deilt oftar en 20 milljón sinnum á samfélagsmiðlinum X undanfarna daga.
Þykir hún minna óþægilega á árásirnar í Bandaríkjunum þann 11. september 2001 en skipuleggjandi þeirra, Khalid Sheikh Mohammad, var handtekinn í Pakistan á sínum tíma og Osama Bin Laden, leiðtogi Al Kaída, var síðan drepinn þar í landi árið 2011.
Flugfélagið hefur ekki enn tjáð sig um málið en sjálfur forsætisráðherra Pakistans, Shehbaz Sharif, hefur fyrirskipað rannsókn og aðstoðarforsætisráðherrann hefur einnig fordæmt málið, samkvæmt BBC.